Fréttasafn



27. feb. 2018 Almennar fréttir

Aukin umferð fylgir því að ýta iðnaði í jaðar byggðar

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt Morgunblaðsins að stefna borgarinnar um að ýta iðnaði út á jaðar byggðarinnar verði til þess að umferð aukist „vegna þess að það er lengra að sækja frá þessum fyrirtækjum til viðskiptavinanna. Það eykur álag á göturnar, sem er þvert á stefnu borgaryfirvalda.“ Tilefnið er frétt blaðsins um helgina þar sem rætt var við Hjálmar Sveinsson, formann umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, um skipulag iðnaðarlóða í borginni, en í endurmati á landþörf iðnaðar i aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 segir að óvissa um tímasetningu losunar byggingarlands í Vatnsmýri skapi „meiri þrýsting á flutning landfrekrar og grófrar iðnaðarstarfsemi úr Ártúnshöfðanum.“ 

Í fréttinni er jafnframt haft eftir Sigurði að það segi sig auðvitað sjálft að það sé ekki ákjósanleg staða fyrir fyrirtæki að þurfa að flytja alla sína starfsemi kannski á 20-30 ára fresti í jaðar borgarinnar eins og hann er hverju sinni. „Það er frekar snúin staða,“ segir Sigurður. 

Iðnaður og íbúðabyggð getur þrifist hlið við hlið

Þá segir að fjarlægðin auki kostnað fyrirtækja sem skili sér óhjákvæmilega í verðhækkunum á þjónustu. Sigurður segir í fréttinni að iðnaður og íbúðabyggð geti vel þrifist hlið við hlið og nefnir þar slippinn við Reykjavíkurhöfn sem dæmi. „Ferðamenn og heimamenn stoppa gjarnan til þess að fylgjast með skipum í slipp og fólki að störfum vegna þess að það er líf í kringum það. Hótelgestir við höfnina hafa frekar verið ánægðir með þessa nánd, heldur en hitt, af því að þetta hefur aðdráttarafl.“ 

Vægi iðnaðar fer ekki minnkandi en eðlið hefur breyst

Í niðurlagi fréttarinnar kemur fram að Sigurður er ósammála að vægi iðnaðar í atvinnulífi borgarinnar dragist saman til framtíðar litið eins og gengir er út frá í endurmati á aðalskipulagi borgarinnar. Vægi iðnaðar fari síst minnkandi í borginni eða nútímasamfélagi. „Eðli hans hefur þó kannski breyst og hann er orðinn tæknivæddari. Innan raða Samtaka iðnaðarins eru 1400 félagar í mjög margvíslegri starfsemi, allt frá mannvirkjagerð og framleiðslu yfir í hátækniiðnað, líftækni og annað,“ segir Sigurður.

Morgunblaðið, 26. febrúar 2018.