Fréttasafn



25. nóv. 2020 Almennar fréttir Félag ráðgjafarverkfræðinga Mannvirki

BIM til umfjöllunar á fundi Yngri ráðgjafa

Um 40 manns mættu á þriðja rafræna fundinn í fundaröð Yngri ráðgjafa, sem er deild innan Félags ráðgjafarverkfræðinga, um nýsköpun og nýjar lausnir í mannvirkjagerð sem fram fór í morgun. Efni fundarins var BIM en það voru þau Hjörtur Sigurðsson, VSB verkfræðistofu, og Ingibjörg Birna Kjartansdóttir, Ístak, stjórnarmenn í BIM Íslandi, sem héldu erindi á fundinum. Fundarstjóri var Sandra Rán Ásgrímsdóttir hjá Mannviti sem er formaður Yngri ráðgjafa og er á myndinni hér fyrir ofan. 

Ingibjörg nefndi m.a. mikilvægi þess að þegar við ætlum að innleiða nýja tækni að muna eftir ákveðnum gildum – breyttum ferlum, breyttu hugarfari, breyttum hefðum og venjum og svo verða til ný hlutverk. Tækniframfarir einar og sér hleypa okkur ekki áfram heldur skiptir samvinna máli. Hún fór m.a. yfir hvernig hægt er að nýta BIM til að auka framleiðni. BIM nýtist t.d. í rýni á hönnunargögnum og rýni til framleiðslu. Áreiðanleiki hönnunargagna eykst töluvert og minnkar líkur á mistökum. Sjónrænu áhrifin minnka einnig mistök á verkstað og auka sameiginlegan skilning. Hér er hægt að nálgast glærur Ingibjargar.

Hjörtur fór yfir ýmsar tækninýjungar og sagði frá t.d. vélmennum í byggingariðnaði, þrívíddarprentun, sýndarveruleika, gervigreind o.fl. Hann sýndi m.a. dæmi um þrívíddarprentuð mannvirki en þrívíddarprentun eininga býður t.d. upp á aukinn fjölbreytileika í formi. Hann sýndi m.a. frá vélmennum sem geta skorið út mun fjölbreyttari form en nú er hægt að gera nema með mjög kostnaðarsamri sérsmíði. Vélskorin steypumót eru komin í notkun og sýnt var hús í Danmörku þar sem þessi tækni var notuð. Einnig var sýnt frá sjálfvirkum vinnuvélum og svokölluðum sjálfvirkum eftirlitsmönnum, þ.e. vélmenni útbúið þrívíddarskanna. BIM er grunnurinn sem tengir þetta allt saman. Hér er hægt að nálgast glærur Hjartar.

Í lok fundarins var opnað fyrir spurningar og mynduðust góðar umræður.

Fundur-november-2020-4-Hjörtur Sigurðsson hjá VSB verkfræðistofu.

Fundur-november-2020-6-Ingibjörg Birna Kjartansdóttir hjá Ístaki.

Fundur-november-2020-2-

Fundur-november-2020-3-

Fundur-november-2020-5-