Fréttasafn



23. mar. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Borgar sig að aðgerðir séu umfangsmeiri en að upp á vanti

Víðtækar aðgerðir stjórnvalda til stuðnings fólki og fyrirtækjum vegna samdráttar í efnahagslífinu af völdum kórónuveirunnar lofa góðu. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í Morgunblaðinu í dag. „Þetta eru nauðsynlegar aðgerðir á erfiðum tímum og framganga stjórnvalda er bæði skýr og afgerandi. Við fögnum þessum umfangsmiklu aðgerðum og ég get tekið undir með fjármálaráðherra að við þessar aðstæður borgar sig að aðgerðir séu umfangsmeiri en hitt að upp á vanti. Hér eru stjórnvöld að hjálpa almenningi og fyrirtækjum að taka réttar ákvarðanir við mikla óvissu. Fyrirtæki fá líflínu svo þau geti greitt starfsfólki sínu laun og þannig verður lífi haldið í heimilunum í landinu. Fyrirtækin geta með stuðningi líka haldið sjó og þannig myndað viðspyrnu fyrr en ella, þegar veiran er gengin yfir og aðstæður orðnar betri. Þannig er flýtt fyrir efnahagsbata.“ 

Samdráttur í öllum atvinnugreinum

Þá segir Sigurður í Morgunblaðinu að hann hafi verið í sambandi við umbjóðendur sína í Samtökum iðnaðarins á síðustu dögum – og segist greina að fólk beri kvíðboga gagnvart næstu mánuðum. Í flestum fyrirtækjum og í öllum atvinnugreinum megi merkja samdrátt og eftirspurn hafi minnkað. Í því efni hafi mál þróast mjög hratt síðustu dagana. Framleiðsla sé stöðug „Í ýmsum greinum, svo sem matvælaiðnaði, er mikilvægt að starfsemi haldist gangandi og framleiðsla sé stöðug. Þá er stóriðjan viðkvæm fyrir truflunum í rekstri. Áður en þessi skæði faraldur gekk í garð var byggingaiðnaðurinn mjög farinn að kólna og því er fagnaðarefni að nú eigi að gefa í með auknum framkvæmdum – hvort sem er vegagerð, nýbyggingar eða endurgreiðsla á virðisaukaskatti í gegnum átakið Allir vinna, sem nú verður endurvakið. Já, almennt tel ég ríkisstjórnina bregðast rétt við aðstæðum, sem eru þó erfiðar og breytast hratt. Eins og þau bentu á verður meira gert ef þarf. Það eru mikilvæg skilaboð til landsmanna allra.“

Morgunblaðið / mbl.is, 23. mars 2020.