Fréttasafn



29. ágú. 2018 Almennar fréttir

Byggingariðnaðurinn hefur nær tvöfaldast

„Byggingariðnaðurinn hefur næstum tvöfaldast frá 2010 en þá var auðvitað mikil lægð. Við höfum samt ekki enn náð sama umfangi og var fyrir hrun. Þessi vöxtur hefur skipt miklu máli fyrir verðmætasköpunina á síðustu árum.“ Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Fréttablaðinu í dag en hlutfall byggingarstarfsemi af landsframleiðslu hefur hækkað mikið undanfarin ár. Í fréttinni kemur fram að á síðasta ári hafi hlutur byggingarstarfsemi af landsframleiðslu verið 7,7% í samanburði við 4,4% árið 2010. 

Hlutur iðnaðar 23% af landsframleiðslunni

Í Fréttablaðinu segir að alls hafi hlutur iðnaðar verið tæp 23% landsframleiðslunnar á síðasta ári samkvæmt nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins og verðmætasköpunin hafi verið um 582 milljarðar króna. Sigurður bendir á að hlutur þriggja megingreina iðnaðar hafi verið nokkurn veginn jafn stór en hlutur framleiðslugreina hefur hins vegar farið minnkandi. „Við erum að sjá mikla breytingu þar. Það undirstrikar þessar efnahagssveiflur sem hafa mikil áhrif á starfsskilyrði fyrirtækja. Sveiflurnar draga úr uppbyggingu og fjárfestingum og þar með úr framleiðni. Við náum auðvitað betri framleiðni með auknum fjárfestingum og nýsköpun.“

Laun hækkað, háir vextir og háir skattar

Sigurður segir í fréttinni að framleiðsluiðnaður líði fyrir háan innlendan framleiðslukostnað. „Launakostnaður hefur hækkað mikið og við búum við háa vexti, háa skatta á fyrirtæki og þá sértaklega tryggingargjaldið. Svo hefur samkeppnisforskotið í orkukostnaði verið að minnka.“

Mikill tími fer í hagræðingu hjá fyrirtækjum

Í Fréttablaðinu segir að hlutur hugverkaiðnaðar hafi haldist lítið breyttur undanfarin fimm ár. „Það er áhugavert að sjá að þessi iðnaður hefur nánast staðið í stað á sama tíma og krónan hefur styrkst verulega. Það fer mikill tími í hagræðingu hjá fyrirtækjum sem ætti að fara í þróunar-, sölu- og markaðsstörf.“

Sigurður segist binda miklar vonir við vinnu sem nú stendur yfir við mótun nýrrar nýsköpunarstefnu. „Vonandi mun takast að láta allt kerfið gang í takt. Það má ekki gleyma því að hið opinbera ver heilmiklum fjármunum til nýsköpunar. Það er samt ljóst að það á að vera hægt að nýta þá fjármuni miklu betur.“

Á vef Fréttablaðsins er hægt að lesa fréttina í heild sinni.