Fréttasafn



9. jún. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Dregur úr eftirspurn hjá arkitektastofum

Jonsi_13-320x334Á vef Fréttablaðsins er rætt við Jón Ólaf Ólafsson, formann Samtaka arkitektastofa, SAMARK, um niðurstöður úr nýrri könnun samtakanna þar sem kemur fram að dregið hafi úr eftirspurn hjá nánast öllum arkitektastofum vegna COVID-19 faraldursins, eða hjá 87% þeirra. Einnig kemur fram að niðurstöðurnar sýni að auki að 89% telja að eftirspurn muni dragast enn frekar saman á næstunni. Könnunin var gerð meðal 24 arkitektastofa innan samtakanna. „Þetta er náttúrulega alvarlegur hlutur fyrir stéttina. Við höfum bent á það að við séum teknir með í þessa pakka sem ríkisstjórnin hefur verið að skoða. Það sem við höfum hins vegar dálitlar áhyggjur af er m.a. það að Reykjavíkurborg ætlar að halda fleiri arkitektarsam­keppnir en arkitektasamkeppnir hjálpa ekki fyrirtækjunum til þess að afla sé tekna. Þær eru yfirleitt ekkert annað heldur en fjárútlát fyrir þau fyrirtæki. Þannig að arkitektasamkeppnir eru engin lausn fyrir fyrirtækin.“ 

Erfið lausafjárstaða

Þá segir í fréttinni að í könnuninni hafi einnig verið spurt hvort reiknað væri með því að lausafjárstaða verði erfið á næstunni vegna faraldursins og segja 46% svo vera en muni ekki vega að rekstrargrundvelli og 29% segja að lausafjárstaðan verði erfið og muni vega að rekstrargrundvelli, 25% gera ekki ráð fyrir að lausafjárstaðan verði erfið á næstunni vegna faraldursins.

Opna rammasamning Ríkiskaupa

Þegar blaðamaður spyr Jón um mögulegar aðgerðir segir hann m.a. að það ætti að opna rammasamning Ríkiskaupa. „Illa heillu þegar hann var boðinn út þessi rammasamningar virðist sem að hann hafi ekki  verið kynntur eða auglýstur sem skildi í fjölmiðlu. Það gerði það að verkum að það eru ákaflega fá fyrirtæki sem sendu inn tilboð. Mér skilst það séu ekki nema fimm eða sex arkitektafyrirtæki í samningnum sem er afskaplega fá fyrirtæki. Við höfum óskað eftir því að samningurinn verði opnaður þannig að fleiri fyrirtæki komist inn í samninginn.“

Arkitektar eins og kólibrífugl

Jafnframt segir Jón stöðuna ekki bara vera áhyggjuefni fyrir arkitektastofur. „Arkitektafyrirtækin eru dálítill vegvísir, þetta er svona kólibrífugl sem segir okkur til um hvers má vænta því við erum einfaldlega þeir fyrstu sem yfirleitt koma að borði. Þess vegna er þetta ógnvænlegt fyrir þá sem eiga eftir að koma og þá erum við að tala um alla sérráðgjafana og verktakafyrirtækin. Ef samdrátturinn er að verða svona mikill og harkalegur hjá okkur þá er þetta bara bein ávísun á það sem mun gerast hjá öðrum nema það verði farið í framkvæmdir.“ 

Frettabladid.is, 8. júní 2020.