Fréttasafn



12. okt. 2023 Almennar fréttir

Dvergsreitur, Edda og Hlöðuberg tilnefnd í hönnunarverðlaunum

Tilkynnt hefur verið um þá þrjá staði sem hlotið hafa tilnefningu í Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs

Dvergsteinar

Dvergsreitur eftir arkitektastofurnar KRADS og TRÍPÓLÍ, ásamt Landmótun

Rökstuðningur dómnefndar:
Dvergsreitur er blönduð byggð í hjarta Hafnarfjarðar sem nýverið var lokið við byggingu á. Reiturinn er höfundum sínum, verkkaupa og sveitarfélaginu, til mikils sóma og þar er þétting byggðar vel heppnuð. Í verkefninu er fallega unnið með umfang og form nærliggjandi húsa og haganlega sköpuð rými eru á milli bygginganna, þrátt fyrir mikinn þéttleika. Efnisval er nútímalegt, en vísar í nærliggjandi hús og minnkar sýnilega stærðarskölun með markvissri notkun breytileika í efnisvali. Þegar betur er að gáð er leikur að formum húsanna og jafnvel árekstur, sem gefur þeim kæruleysislegt, ef ekki hreinlega gamansamt yfirbragð.

Áður stóðu verksmiðjuhús Dvergsins á reitnum. Lögð var áhersla á að nýbyggingar á lóðinni væru hannaðar með þeim hætti að þær féllu sem best að fíngerðara útliti nærliggjandi byggðar. Markmið hönnunarinnar var að skapa eins konar þorpsanda, ramma fyrir hlýlegt mannlíf, sem bæði íbúar sem hafa eigið viðverusvæði í skjólgóðum húsagarði fjær götunum og gestir sem sækja verslun og þjónustu á jarðhæðunum, geta notið.

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar.

 Edda3

Edda, hús íslenskunnar eftir Hornsteina arkitekta

Rökstuðningur dómnefndar:
Edda er nýtt hús íslenskunnar, sem stendur á Melunum í Reykjavík. Byggingin er einkennandi og áhrifamikil. Vandað er til verka af fagmennsku, listfengi og hugað að hverju smáatriði að innan sem utan. Sporöskjulaga formið og einstök áferð hið ytra gefur til kynna dýrmætt innihald. Edda er bjart og opið hús þar sem fallegir inngarðar gefa innri rýmum andrúm og birtu. Bygging Eddu á sér langan aðdraganda og sérstaklega ánægjulegt að sjá þessa mikilvægu og metnaðarfullu byggingu, sem markar tímamót fyrir miðlun menningararfs á Íslandi, rísa í borginni.

Edda var vígð á vormánuðum og er ný lykilbygging í íslensku samfélagi, sem geymir handrit Íslendinga, merkustu menningarverðmæti þjóðarinnar. Byggingin stendur í grunnri spegiltjörn og að utan er hún klædd koparhjúp með stílfærðum afritum texta úr handritum, sem í senn skreytir veggina og vekur forvitni um það sem býr innan þeirra. Í húsinu er starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar og Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands sameinuð ásamt því að varðveisla og aðgengi almennings og ferðafólks að íslenskum menningarverðmætum er tryggð til langrar framtíðar.

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar.


Hloduberg3

Hlöðuberg eftir Studio Bua

Rökstuðningur dómnefndar:
Hlöðuberg er einstakt heimili og vinnustofa listamanns á Skarðsströnd við Breiðafjörð. Húsið er hannað með virðingu fyrir sögu, staðaranda, náttúru og umhverfi að leiðarljósi. Forsendur hönnunarinnar skína í gegnum allar lausnir í verkinu, svo úr verður hús með skýr útlitseinkenni sem skapar einstakan staðaranda. Endurnýting og hagkvæmnisjónarmið ráða öllu efnisvali, en verkefnið er mjög í anda nýjustu strauma í arkitektúr og byggingarlist þar sem endurnýting efna og umhverfissjónarmið eru allsráðandi.

Arkitektastofan Studio Bua endurhannaði steinsteypta hlöðu í bjart og nútímalegt heimili og vinnustofu á Hlöðubergi. Form hússins er bárujárnsklæddur skáli sem stendur á upprunalegri steinsteyptri neðri hæð. Einkennandi fyrir verkið er að veggir gamallar hlöðu hafa verið endurnýttir og efri hæð er byggð ofan á þá. Innra skipulag er einfalt, stílhreint og haganlega leyst svo úr verða fjölbreytt rými og hús sem er stærra að innan en það virðist að utan. 

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar.


Í dómnefnd sitja Sigríður Sigurjónsdóttir, formaður dómnefndar, Þorleifur Gunnar Gíslason, Eva María Árnadóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Halldór Eiríksson, Erling Jóhannesson, Margrét Kristín Sigurðardóttir og Tor Inge Hjemdal. Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.