Fréttasafn



24. mar. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Dýrkeypt vantraust milli atvinnulífsins og SKE

„Það ríkir vantraust atvinnulífsins í garð Samkeppniseftirlitsins,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali í Dagmálum sem birt er á mbl.is í dag og greint er frá í Morgunblaðinu. Sigurður segir að það sé á suman hátt gagnkvæmt því Samkeppniseftirlitið, SKE, virðist vantreysta atvinnulífinu. „Þetta vantraust er samfélaginu stórkostlega dýrkeypt.“ 

Í frétt Morgunblaðsins segir að Sigurður tæpi á ýmsum þeim málum sem upp hafi komið vegna Samkeppniseftirlitsins, fjölmiðlaumfjöllun og nýlegri gagnrýni forystumanna í atvinnulífi í þess garð. Hann minnir á að það gerðu menn ekki að gamni sínu, enda veigruðu margir sér við að ýfa stofnunina, það væri of mikið í húfi fyrir þau. „Það er erfitt að sjá lausnina á þessu, en það verður ekki gert með því einu að atvinnulífið líti í eigin barm, eins og ætla má af orðum forstjóra Samkeppniseftirlitsins,“ segir Sigurður og gagnrýnir hann fyrir skoðanagleði í fjölmiðlum. Sigurður telur yfirstjórn stofnunarinnar hafa farið út af sporinu. „Einhvern veginn virðist það vera þannig að Samkeppniseftirlitið nær ekki að gera sig skiljanlegt, því að forstjóri þess þarf að koma fram æ ofan í æ og lýsa því yfir að einhver misskilningur sé á ferðinni í hverju málinu á fætur öðru.“ 

Sigurður er ásamt Svanhildi Hólm Valsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, í viðtali við Andrés Magnússon í þættinum Dagmál sem birtur hefur verið á mbl.is. 

Á vef mbl.is er hægt að nálgast þáttinn. 

Morgunblaðið / mbl.is, 24. mars 2021.

mbl.is, 24. mars 2021.

Dagmal-24-03-2021Svanhildur Hólm Valsdóttir, Sigurður Hannesson og Andrés Magnússon ræða um þjóðmálin.