Fréttasafn



9. feb. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Eftirbátar í nýfjárfestingu en staðan að batna

Við höfum verið eftirbátar annarra þjóða í nýfjárfestingu sem er þróun sem við verðum að snúa við. Sem betur fer eru stjórnvöld að vakna til vitundar um þessa stöðu og hafa nú á skömmum tíma gert mjög margt til að bæta rekstrarumhverfi nýsköpunar og fyrirtækja. Því ber að fagna. Þetta segir Jóhann R. Benediktsson, markaðsstjóri Curron og stjórnarmaður í Samtökum upplýsingatæknifyrirtækja, SUT, í grein sinni í Fréttablaðinu. Hann vitnar til nýlegrar greinar  Sigríðar Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs SI, þar sem hún hvetur til að tækifærin verði sótt og að hún bendi á með réttu að fjárfesting í nýsköpun muni ráða úrslitum um framtíðarlífskjör á Íslandi. 

Johann-R.-Benediktsson-CurronJóhann segir það mikilvægt að líta heildstætt á málin til að ná hámarks árangri. Góður árangur náist í nýsköpun ef allir kraftar togi í sömu átt, gott menntakerfi sem skili öflugu vinnuafli, hagstætt skattaumhverfi og skattalegir hvatar, sterkir nýsköpunarsjóðir, lágir vextir og svo framvegis. Mikil gerjun sé á öllum þessum sviðum og víðs vegar sé mikil vinna í gangi við að efla og gera betur. Hann nefnir dæmi af fjárfestingum í fyrirtækjum á borð við LS Retail, Sidekick og Controlant.

Jóhann segir í niðurlagi greinar sinnar að hin alþjóðlega samkeppni sé hörð og óvægin í heimi nýsköpunar og Ísland eigi enn á brattann að sækja. „Við eigum að sækja mannauð og þekkingu, fjármagn og laða beina fjárfestingu til Íslands eins og frekast er kostur. Við erum á réttri leið og vonum að nýtt ár beri með sér fleiri óvænta sigra.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 9. febrúar 2021.

Frettabladid-09-02-2021