Fréttasafn



1. des. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Hægt að nota íslenska fánann í ríkari mæli

Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur SI, fór yfir drög að reglugerð um notkun þjóðfána Íslendinga við markaðssetningu á vörum og þjónustu á fundi fyrir aðildarfyrirtæki SI sem haldin var í Húsi atvinnulífsins í vikunni. Í máli hennar kom meðal annars fram að með drögunum væri verið að skýra nánar ákvæði um notkun íslenska fánans sem gerir þá kleift að nota fánann í ríkari mæli en áður, ferlið verður einfaldað og eftirlitsvaldið verður fært frá ráðherra til Neytendastofu. 

Meginreglan er að vara telst íslensk ef hún er framleidd hér á landi úr innlendu hráefni og þá er heimilt að nota íslenska fánann. Dæmi um það er ungnautahakk með kjöti af dýri sem er fætt, alið, slátrað og niðurhlutað á Íslandi, íslenskt grænmeti ræktað hér á landi eða viskí þar sem hráefni er bygg sem er ræktað á Íslandi og íslenskt vatn. En vara getur einnig talist íslensk ef hún er framleidd hér á landi úr innfluttu hráefni að hluta eða öllu leyti ef næg aðvinnsla hefur átt sér stað hér á landi. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum fyrir nægjanlega aðvinnslu er heimilt að nota fánann. 
Hvað hönnunarvöru varðar þá telst hún íslensk ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki, jafnvel þó hún sé framleidd erlendis úr erlendu hráefni. Í þeim tilvikum er heimilt að nota íslenska fánann en tilgreina þarf framleiðsluland með skýrum hætti þannig að neytendur fái ekki rangar eða villandi upplýsingar.  

Ekki er heimilt að nota íslenska fánann ef vara telst ekki vera íslensk og á það við ef vara er framleidd úr innfluttu hráefni sem telst vera einkennandi fyrir vöruna og er eðlislík búvöru sem ræktuð er hér á landi, vöru sem framleidd er á garðyrkjubúi eða nytjastofnum sjávar veiddir af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.

Nánar um drögin á meðfylgjandi glærum

Hér má lesa drögin að reglugerðinni.

Björg Ásta ræddi um fánalögin í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2.