Fréttasafn



11. mar. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Einkaaðilar komi að nauðsynlegri uppbyggingu innviða

Í frétt Hallgríms Indriðasonar, fréttamanns á RÚV, er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, sem hélt erindi á ráðstefnu Verk og vit um innviði landsins. Hann segir að ríki og sveitarfélög ráði ekki ein við nauðsynlega uppbyggingu innviða og telur að einkaaðilar þurfi að koma að henni. Ingólfur segir að þörf sé á stórátaki í fjárfestingum og nú sé rétti tíminn.

Á ráðstefnunni gerði Ingólfur að umtalsefni mikinn samdrátt sem orðið hefði í innviðauppbyggingu, eins og vegaframkvæmdum, frá hruni, fyrst vegna slæms fjárhags. „Síðan þegar hagvöxturinn fór að glæðast myndaðist spenna í hagkerfinu og til þess að skapa mótvægi þar spöruðu menn við sig þessar fjárfestingar.“ Hann segir að nú sé staðan hins vegar allt önnur og þegar niðursveifla sé framundan sé þörfin fyrir sterka innviði og fjárfestingaþörfin mikil, aðallega í vegum og raforku.

Í fréttinni segir að í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins komi fram að fjárfestingaþörfin sé upp á 372 milljarða króna og Ingólfur segir það umtalsverðar fjárhæðir. „Þetta eru umtalsverðar fjárhæðir og erfitt að sjá að ríki og sveitarfélög beri það ein.“ Því þurfi samstarf við einkaframtakið eins í Hvalfjarðargöngunum. Hann segir rannsóknir sýna að slíkar framkvæmdir hafa tilhneigingu til að vera innan áætlana frekar en aðrar, bæði kostnaðarlega og tímalega séð og viðhaldi viðkomandi innviða sé betur sinnt. 

Ingólfur segir einnig mikla fjárfestingaþörf á höfuðborgarsvæðinu, vegakerfinu þar hafi lítið verið sinnt undanfarin ár. „Og full þörf á núna þegar við sjáum að umferð hefur stóraukist, fjölgun bíla og svo bætist við ferðaþjónustuumferðin, að gera stórátak á þessu sviði.“

Á vef RÚV er hægt að horfa á fréttina í heild sinni.