Fréttasafn



30. okt. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Einkaleyfaskráning fái meiri fókus í atvinnulífinu

Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, segir í Morgunblaðinu að einkaleyfaskráning þurfi að fá meiri fókus í atvinnulífinu, sem haldist í hendur við uppbyggingu fjórðu stoðarinnar í íslensku hagkerfi, þ.e. útflutningsstoðar sem byggist á hugviti og nýsköpun. Aðrir grunnatvinnuvegir á Íslandi séu í minni mæli í einkaleyfadrifinni starfsemi, en þar á Árni við stoðirnar þrjár; sjávarútveg, orku- og ferðaiðnað. „Með því að setja meiri fókus á fjórðu stoðina myndi það vafalaust ýta undir fjölgun einkaleyfaskráninga. Sumum fyrirtækjum þykir einkaleyfaferlið langt og tímafrekt, auk þess sem það getur verið mjög sérhæft. Smæð landsins hjálpar ekki í því tilliti. En skráningar einkaleyfa ættu að vera fleiri en þessar tölur sýna, því við eigum mörg frábær fyrirtæki og frumkvöðla sem eru að vinna með verkefni og hugmyndir sem vel gætu verið einkaleyfatækar.“ 

Í fréttinni er vitnað til umfjöllunar Morgunblaðsins um ónýtt tækifæri í upplýsinga- og fjarskiptatækniiðnaði þar sem kemur fram að Íslendingar séu miklir eftirbátar nágrannaþjóðanna þegar kemur að einkaleyfum í iðnaðinum. Greint er frá því að í nýútkominni greiningu Samtakaiðnaðarins segi að ástæðuna megi að einhverju leyti rekja til lítillar hlutdeildar fólks með STEM-færni (menntun í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði ) á íslenskum vinnumarkaði en Ísland rekur þar lestina í hópi OECD-landa. 

Skapa aukinn hvata fyrir fyrirtæki að sækja um einkaleyfi

Þegar Árni er spurður um yfirburði Svía og Finna í þessum efnum nefnir hann að flestir þekki uppgang tæknifyrirtækja í þeim löndum eins og Nokia og Ericsson, en sá uppgangur sé tilkominn að hluta til vegna þess að stjórnvöld hafi skapað hagfellt umhverfi, það sama þyrfti að gerast hér á landi, það myndi svo aftur hafa í för með sér aukna skráningu einkaleyfa. „Sem dæmi um ívilnanir sem við höfum átt í viðræðum við stjórnvöld um, og eru notaðar víða í Asíu og Evrópu, er innleiðing sérstakra skattaívilnana til fyrirtækja vegna hagnaðar sem kemur til vegna skráðra hugverka. Þessar ívilnanir hafa almennt gengið undir nafninu „Patent Box“ og ýmis skilyrði eru fyrir því að fyrirtæki geti nýtt sér slíka ívilnun, t.a.m. að starfsemin skili hagnaði og að rannsóknir og þróun sem leiddu til einkaleyfis hafi átt sér stað hjá fyrirtækinu. Slíkar aðgerðir myndu skapa aukinn hvata fyrir fyrirtæki að sækja um einkaleyfi, og þau myndu þá að sama skapi leggja meira fjármagn í rannsóknarog þróunarstarf. Við gætum þannig orðið samkeppnishæfari við önnur lönd á þessu sviði.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 30. október 2020.

Morgunbladid-30-10-2020-2-