Fréttasafn



24. jan. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Fá íslensk hátæknifyrirtæki orðið til á síðustu 20 árum

Flest þau fyrirtæki sem eru burðarstoðirnar í íslensku hátæknisenunni í dag eru a.m.k. 20 ára gömul. Vissulega eru nokkur ný efnileg vaxtarfyrirtæki sem allir vona að stækki enn meira en þegar kemur að nokkur hundruð manna fyrirtækjum sem bera uppi fjölda hátæknistarfa, ný einkaleyfi og draga erlendan gjaldeyri inn í landið í milljörðum þá hefur furðulega lítið gerst síðustu 20 árin í íslenska hagkerfinu. Þetta segir Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs SI, í grein sinni í Morgunblaðinu þar sem hann spyr af hverju séu ekki fleiri stór hátæknifyrirtæki á Íslandi. 

Tryggvi spyr áfram hvort það geti verið að það sem helst aftri því að íslensk nýsköpunarfyrirtæki vaxi og verði að burðugri fyrirtækjum sé aðgangur að erlendu og innlendu vaxtarfjármagni. Hann segir ýmislegt renna stoðum undir þá kenningu og margir hafi spurt sig hvar eru nýju Össur, Marel og CCP fyrirtæki okkar Íslendinga. Hann segir að þegar rætt sé við framkvæmdastjóra stórra og smárra nýsköpunarfyrirtækja og frumkvöðlana sjálfa sé eitt svar ofar flestum öðrum um orsakir þess að fæst af efnilegu fyrirtækjunum okkar nái góðum stökkpalli út í hraðan vöxt og það sé skertur aðgangur að vaxtarfjármagni á Íslandi. 

Ekki skortur á fjármagni því landið að springa af framboði fjármagns

Tryggi segir það furðulega við þetta vandamál sé að á Íslandi sé ekki skortur á fjármagni, þvert á móti mætti halda því fram að landið sé að springa af framboði fjármagns. Hann segir að í fyrra hafi lífeyrissjóðakerfið stækkað um 655 milljarða, kerfi sem eigi oft erfitt með að koma peningum í framkvæmd og því hafi gjarnan verið haldið fram að það vanti fjárfestingarkosti á Íslandi. Þetta sé staðan á sama tíma og íslenskir frumkvöðlar séu í vandræðum með fjármögnun og miðlungsstóru fyrirtækin okkar nái ekki vexti vegna skorts á vaxtarfjármagni. Þá séu ófáar sögurnar um íslensku fyrirtækin sem hafi farið til útlanda með hluta eða alla starfsemi sína vegna framangreinds, einmitt þegar þau séu að ná því að verða sannarlega verðmæt fyrirtæki fyrir hagkerfið. „Lífeyrissjóðunum til tekna má benda á að þeir hafa tekið þátt í að fjármagna örfáa sjóði sem fjárfesta í nýsköpun en ef skoðað er hlutfallið af heildarveltu, þörf á markaði m.v. mælingar eða raunverulegt fjármagn sem fer inn í fjárfestingar m.v. alþjóðlegan samanburð þá er ljóst að þar er ekki ráðist í að lyfta nálægt þeirri þyngd sem er þörf á eða geta er til. Lífeyrissjóðir þurfa að stýra áhættu vel, en í krafti ofurstöðu sinnar sem eigenda yfir 90% af fjárfestingargetu í hagkerfinu bera þeir ábyrgð í samræmi að tryggja að hér verði öflugt hagkerfi til framtíðar sem skapar verðmæt störf og getur tekið við eignum sjóðanna í framtíðinni. Lífeyrissjóðir eru ragir við að setja háar fjárhæðir í einstök fyrirtæki enda þarf mikla eftirfylgni með hverri slíkri fjárfestingu. Þess vegna liggur á að efla fjárfestingu í vísisjóðum og efla samstarf við erlenda aðila og sjóði sem geta aukið líkur á vexti íslenskra fyrirtækja inn á lykilmarkaði og deilt þekkingu.“ 

Morgunblaðið, 23. janúar 2020.