Fréttasafn



24. apr. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Færa þarf vegasamgöngur af rauðu ljósi yfir á grænt

Vegasamgöngur eru okkur afar mikilvægar sem þjóð. Vegakerfið myndar lífæðar samfélagsins og er stór þáttur í verðmætasköpun hagkerfisins og öflun útflutningstekna. Þrátt fyrir mikilvægi hefur ekki verið fjárfest nægjanlega í kerfinu undanfarin ár. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein í ViðskiptaMogganum með yfirskriftinni Vegasamgöngur á rauðu ljósi.

Hann segir að umferð hafi vaxið verulega vegna mikillar fólksfjölgunar og aukins fjölda ferðamanna. Einnig hafi þungaflutningar um vegi landsins aukist til muna. Umferð um þjóðvegi landsins hafi aukist um 67% yfir síðustu 10 ár en vegakerfið hafi ekki vaxið til samræmis við aukninguna. Kerfinu hafi heldur ekki verið viðhaldið nægjanlega og hafi því safnast upp umtalsverð innviðaskuld bæði í nýfjárfestingum og viðhaldi sem komi m.a. fram í auknum umferðartöfum og hættulegri vegum. Skuldasöfnun á þessu sviði sé dýr fyrir samfélagið og þurfi því að finna leiðir til að gera þetta betur – færa vegasamgöngur af rauðu ljósi yfir á grænt.

Vegakerfið ein stærsta eign íslenska ríkisins

Ingólfur segir að Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga hafi gefið út skýrslu um umfang, ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi, fyrst árið 2017 og síðan 2021. Skýrslan sé sú eina sinnar tegundar hér á landi en á sér erlendar fyrirmyndir. Í skýrslunni leggi sérfræðingar verkfræðistofa mat á innviði landsins. Skýrslan sýni að vegakerfið sé ein stærsta eign íslenska ríkisins. Það sé mat sérfræðinganna að það myndi kosta tæplega þúsund milljarða króna að byggja viðlíka vegakerfi í dag en það samanstandi af nær 26 þúsund km af vegum, brúm og jarðgöngum. Verðmæti kerfisins m.t.t. mikilvægi þess fyrir landsmenn sé hins vegar mun meira.

160-180 milljarða króna viðhaldsskuld sem safnast áfram í

Þá segir Ingólfur að í skýrslunni sé viðhaldsskuldin í vegakerfinu metin 160-180 ma.kr. og sé ástand vegakerfisins metið slæmt. Í ljósi þess fjármagns sem ráðgert sé að leggja í viðhald kerfisins í samgöngu- og fjármálaáætlun stjórnvalda muni áfram safnast í viðhaldsskuldina næstu árin.

Ekkert samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila hefur orðið að veruleika

Í greininni kemur fram að í samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034 sé eitt meginmarkmið áætlunarinnar greiðari samgöngur fyrir fólk og vörur og stytting ferðatíma. Lagt sé upp með metnaðarfull markmið um uppbyggingu vegasamgangna. Í áætluninni komi inn þrenn nýmæli – samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins, samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila (PPP) og jarðgangaáætlun. Þessi nýmæli séu sett inn með það að markmiði að flýta mikilvægum verkefnum á sviði samgöngumála og vinna á nýfjárfestingaskuldinni. Ingólfur segir að nú fjórum árum síðar sé lítið sem ekkert af þessum verkefnum orðið að veruleika þó að annað er varðar uppbyggingu vega innan samgönguáætlunarinnar hafi gengið ágætlega. Framkvæmdir innan samgöngusáttmála hafi tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert og kostnaður aukist. Ekkert samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila hafi orðið að veruleika og þrátt fyrir að í jarðgangnaáætlun sé gert ráð fyrir að ávallt sé a.m.k. ein jarðgöng í byggingu hafi engin jarðgöng verið í byggingu síðan Dýrafjarðagöng kláruðust 2020. Áætlanir stjórnvalda á þessu sviði séu mjög mikilvægar en þær þurfi líka að skapa fyrirsjáanleika og vera trúverðugar.

Stofna sérstakt félag um samvinnuverkefni líkt og gert var með Hvalfjarðargöng

Jafnframt kemur fram að lög voru sett um samvinnuverkefni árið 2020 þar sem Vegagerðinni hafi verið veitt heimild til að ráðast í 6 samvinnuverkefni. Nú árið 2024 hafi ekkert þeirra orðið að veruleika sem samvinnuverkefni. Ingólfur segir að reynslan af lögunum kenni mikilvægi þess að tryggja svigrúm til nýsköpunar í slíkum verkum því þannig sé hægt að yfirvinna aukinn kostnað, svo sem í formi hærri fjármagns- og undirbúningskostnaðar. Skilgreina þurfi vel áhættuþætti til útvistunar og hverjir séu hentugri til að taka áhættuna frekar en hið opinbera. Mæta þurfi miklum kostnaði við þátttöku í útboðum slíkra verkefna. Einnig sé hugsanlegt að það þurfi að stofna sérstakt félag um samvinnuverkefni með aðkomu helstu hagsmunaaðila líkt og gert hafi verið með Hvalfjarðargöng sem sé dæmi um vel heppnað samvinnuverkefni. Og síðast en ekki síst þurfi fyrirsjáanleika í uppbyggingu slíkra verkefna sem fáist með trúverðugum áætlunum.

Í niðurlagi greinarinnar segir Ingólfur að til mikils sé að vinna því verkefnin séu mjög þjóðhagslega hagkvæm. Hvert ár sem verkefnin tefjist kosti þjóðfélagið mikið.

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs.

ViðskiptaMogginn, 24. apríl 2024.

VidskiptaMogginn-25-04-2024