Fréttasafn



12. jan. 2017 Almennar fréttir

Fagnar því að ný ríkisstjórn sé komin

Viðskiptablaðið bað nokkra forsvarsmenn atvinnulífsins að leggja dóm á stefnu ríkisstjórnarinnar og þeirra á meðal var Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins: Hann segist í fyrsta lagi fagna því að komin sé ný ríkisstjórn og að honum lítist ljómandi vel á hana. „Við erum nokkuð ánægð með þennan stjórnarsáttmála,“ segir hann. „Við teljum mjög mikilvægt að við brjótum okkur út úr þeirri kyrrstöðu sem peningastefnan hefur verið í. Þannig að við erum ánægð að sjá að forsendur peningastefnunnar verði endurmetnar. Við höfum boðað mikilvægi þess að innviðum sé viðhaldið þannig að þeir grotni ekki nið­ur. Þá er ég ekki bara að tala um vegakerfið heldur raforkukerfið, gagnatengingar við landið og fleira mætti nefna. Okkur finnst yfirlýsingin tala í sama anda og við höfum gert og það er jákvætt. Þá erum við ánægð með að sjá sýnilega áherslu á hugverkageirann og nýsköpun. Þá mætti líka nefna menntamálin en það er mjög jákvætt að sjá að leggja eigi áherslu á að efla verknám enda löngu tímabært.“

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að ekki verður efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar „mengandi stóriðju“. „Tónninn í þessu er ekki sérlega vinveittur atvinnugrein sem skilar Íslandi miklu og er ein af góð­um stoðum fjölbreytts atvinnulífs. Í raun er ekkert óeðlilegt að ríkisstjórn á Íslandi árið 2017 velti því fyrir sér að þessi iðnaður sé ekki vaxtabroddurinn okkar. Hins vegar er þetta iðnaður og þekking sem er að skila okkur mjög miklu og við væntum þess að ríkisstjórnin vilji vera í samtali við okkur á þeim nótum. Með því að nota hugtakið „mengandi“ er verið í vísa í loftslagsmál og loftslagsmál eru alþjóðamál. Staðsetning stóriðju í réttri blöndu við annan iðnað og annað atvinnulíf er í sjálfu sér bara gott loftslagsmál fyrir heiminn. Með því að nota hreina orku í þennan iðnað er verið að standa ákveðna vakt sem er mikilvægt fyrir heimsbyggðina.“

Viðskiptablaðið, 12. janúar 2017.