Fréttasafn



29. sep. 2015 Gæðastjórnun

Fagraf og Vélsmiðja Steindórs fá D-vottun

Fagraf ehf. og Vélsmiðja Steindórs ehf. hafa hlotið D-vottun Samtaka iðnaðarins. D-vottun er fyrsti hluti gæðavottunarkerfis SI sem tekið er upp í fjórum áföngum. Með gæðavottunarkerfinu er stefnt að því að gera rekstur fyrirtækja skilvirkari. Í því fer fyrirtækið í gegnum stefnumótun þar sem afkoma hvers verks eða vöru er skilgreind með það að markmiði að auka framleiðni og hagnað fyrirtækisins.

Fagraf var stofnað árið 2001. Eigendur eru Sigurður Valur Pálsson og Pétur Elvar Birgisson. Fagraf leggur áherslu á vönduð og góð vinnubrögð sem hefur skapað þeim stóran hóp ánægðra viðskiptavina. Fyrirtækið tekur að sér allar tegundir raflagnavinnu en aðalverkefni eru verið á sviði iðnaðar, verslunar og skrifstofuverkefna, bæði nýlögnum og þjónustu.

Mynd[1] Vélsmiðja Steindórs ehf. á Akureyri var stofnuð þann 14. október 1914 og hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi, eða í rúm 100 ár. Vélsmiðjan er eitt elsta starfandi málmiðnaðarfyrirtækið á Íslandi. Starfsemi Vélsmiðjunnar er á sviði málmiðnaðar og þjónustu við sjávarútveg, iðnað og mannvirkjagerð. Húsnæði fyrirtæksins er 400 m2 með góðum tækjakosti. Hjá Vélsmiðjunni starfa hæfir handverksmenn með staðgóða þekkingu í sínum fögum.