Fréttasafn



23. apr. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Félag hársnyrtimeistara og -sveina í Reykjavík til liðs við SI

Félag hársnyrtimeistara og -sveina í Reykjavík hefur gengið til liðs við Samtök iðnaðarins en samkomulag þess efnis var undirritað í Húsi atvinnulífsins fyrir skömmu.

Með samkomulaginu verða allir félagsmenn Félags hársnyrtimeistara og -sveina í Reykjavík sem stunda atvinnurekstur félagsmenn í Samtökum iðnaðarins og þar með í Samtökum atvinnulífsins. Þannig bætast við hátt í 50 nýir félagsmenn í hóp þeirra 1.700 fyrirtækja sem eru nú þegar í Samtökum iðnaðarins.

Sögu Félags hársnyrtimeistara og -sveina í Reykjavík er hægt að rekja til ársins 1999 þegar Meistarafélag hársnyrta var stofnað. Í febrúar síðastliðnum var félagið opnað fyrir hársnyrtisveina og nafni félagsins því breytt í Félag hársnyrtimeistara og -sveina í Reykjavík. Í upphafi var félagið stofnað með það að markmiði að efla samvinnu og samheldni meðal meistara í hársnyrtiiðn og eiga samstarf við hliðstæð samtök erlendis.

Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins: „Við fögnum því að fá Félag hársnyrtimeistara og -sveina í Reykjavík til liðs við okkur og hlökkum til samstarfsins. Innan okkar raða er Félag hársnyrtimeistara á Norðurlandi og því ánægjulegt að meistarar og sveinar í Reykjavík bætist við í þennan öfluga hóp. Nú sem fyrr er mikilvægt að standa vörð um hársnyrtiiðn sem er löggilt iðngrein og við munum ekki láta okkar eftir liggja hvað það varðar.“

Andri Týr Hermannsson, formaður Félags hársnyrtimeistara og -sveina í Reykjavík: „Það er spennandi fyrir okkur að verða aðilar að stærstu og öflugustu atvinnurekendasamtökum á Íslandi. Við eigum samleið í mörgum hagsmunamálum, meðal annars í menntamálum þar sem við leggjum mikla áherslu á að menntun starfsfólks og stjórnenda í greininni sé eins góð og kostur er.“

Myndir/BIG

Frá undirritun samkomulags milli Félags hársnyrtimeistara og -sveina í Reykjavík og Samtaka iðnaðarins sem fór fram í Húsi atvinnulífsins, talið frá vinstri, Erla Tinna Stefánsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, Árni Sigurjónsson, formaður SI, Andri Týr Hermannsson, formaður Félags hársnyrtimeistara og -sveina í Reykjavík, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Si_undirritun_11042024-1Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Andri Týr Hermannsson, formaður Félags hársnyrtimeistara og -sveina í Reykjavík, skrifa undir samkomulagið.



Viðskiptablaðið, 23. apríl 2024.