Fréttasafn



22. maí 2015 Iðnaður og hugverk

Fjölmenn ráðstefna Matvælalandsins Íslands um tækifæri í útflutningi matvæla

 

Samstarfshópur um Matvælalandið Ísland efndi til ráðstefnu um útflutning matvæla á Hótel Sögu í gær 21. maí.

 

Markmiðið með ráðstefnunni var að vekja athygli á tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar í matvælageiranum með útflutningi, miðla reynslu og hvetja þannig fleiri til að vinna með markvissum hætti að því að sækja á erlendan markað með matvælaafurðir. Um 150 manns sótti ráðstefnuna og lýstu margir ánægju sinni með þetta framtak. Ekki spillti að í upphafi dagskrár var boðið upp á kræsingar frá meistarakokkum Grillsins.

 

Efni ráðstefnunnar var tvískipt. Í fyrri hluta fjölluðu sérfræðingar um þá vinnu sem þarf að inna af hendi áður en ráðist er í útflutning. Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs og matvælasviðs Íslandsstofu fjallaði um mikilvægi þess að marka sér skýra stefnu áður en haldið er af stað og framfylgja henni. Jón Georg Aðalsteinsson, stjórnarformaður, Ice-Co í Sviss, hefur rekið umboðsfyrirtæki fyrir íslenskar vörur á meginlandi Evrópu um árabil. Hann fjallaði um kröfur erlendra kaupenda og hvernig hægt sé að mæta þeim. Í máli hans kom fram að mikilvægt sé að gera sér raunhæfa áætlun til langs tíma. Áreiðanleiki, stöðug gæði, góð þjónusta og öruggt framboð árið um kring eru lykilatriði til að viðhalda viðskiptasamböndum. Geti maður ekki staðið við gerða samninga og missi þannig traust kaupenda er mjög erfitt og kostnaðarsamt að byggja það upp aftur. Dr. Hrönn Jörundsdóttir, verkefnastjóri og Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís fjölluðu um mikilvægi þess að afla gagna til að sýna fram á hreinleika og öryggi afurða.

 

Í síðari hluta ráðstefnunnar sögðu nokkur fyrirtæki úr ólíkum greinum frá reynslu sinni af útflutningi matvæla, hindrunum sem þarf að yfirstíga og lykilárangursþáttum. Samhljóma álit þeirra var að samvinnu þyrfti að auka til að miðla reynslu og draga úr kostnaði. Öll vilja þau leggja áherslu á sérstöðu landsins, sögu og menningu við markaðssetningu íslenskra matvæla til erlendra kaupenda.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf sér tíma frá annasömum þingstörfum til að flytja ráðstefnugestum ávarp. Þar greindi hann frá því að ríkisstjórnin hefði nýlega samþykkt að leggja 80 milljónir króna á ári til Matvælalandsins Íslands næstu fimm árin í því skyni að treysta orðspor og móta ímynd Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla og auka með því móti gjaldeyristekjur þjóðarinnar.

 

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, flutti lokaávarp ráðstefnunnar þar sem hún hvatti til áframhaldandi samstarfs og lýsti þeirri skoðun sinni að mikil tækifæri leynist í íslenskri matvælaframleiðslu.

 

Fundarstjóri var Alda Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamar Seafood.

Að Matvælalandinu standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Bændasamtök íslands, Íslandsstofa, Matís, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og fyrirtæki í þessum samtökum.