Fréttasafn



24. jan. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Fjölmennur fundur SI með fulltrúum Tækniþróunarsjóðs

Fullt var út að dyrum á kynningarfundi sem Samtök iðnaðarins stóðu fyrir ásamt fulltrúum Tækniþróunarsjóðs um styrkjaform sjóðsins og umsóknaferli síðastliðinn mánudag í Húsi atvinnulífsins. Fundarsóknin sýndi þann mikla áhuga sem er á sjóðnum meðal sprota- og nýsköpunarfyrirtækja en næsti umsóknarfrestur í sjóðinn er 15. febrúar næstkomandi. 

Stjórn Tækniþróunarsjóðs hefur unnið að ýmsum breytingum í styrkjakerfinu sem fyrirtækin hafa fengið fyrstu reynslu af á síðasta ári. Á fundinum fór Sigurður Björnsson hjá Rannís yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á styrkjaforminu og umsóknaferlinu. Fundarmönnum gafst kostur á að koma með ábendingar um æskilegar umbætur. Í því sambandi kom fram að umsækjendur hefðu verið að flaska á formsatriðum með umsóknir sínar t.d. varðandi umsóknareyðublöð og fleira. Fram kom ábending um að æskilegt væri að láta umsækjendur vita fyrr ef umsókn þeirra væri ekki tekin fyrir vegna formgalla, þar sem slík ákvörðun lægi alla jafna fyrir tiltölulega snemma í ferlinu.

Erlendur Steinn Guðnason, formaður Samtaka sprotafyrirtækja (SSP), fór yfir reynslu þeirra fyrirtækja sem hann hefur tengst á síðustu árum varðandi umsóknir til sjóðsins auk þess sem hann ræddi um skattívilnun til endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði. Erlendur lagði mikla áherslu á að umsækjendur gefi sér góðan tíma í að vinna umsóknir og eins að byrja ekki of seint að hlaða inn gögnum á umsóknarvef Rannís, þar sem uppfylla þarf margskonar formsatriði sem geta verið til trafala á lokametrunum.  

Í fyrirspurnum og umræðum komu fram margar spurningar um hvað ræður forgangsröðun verkefna, ekki síst varðandi þann afrakstur og  verðmætasköpun sem lögð er til grundvallar bæði í formi sölu afurða og virðisauka sem reikna mætti hjá innlendum notendum afurðanna. Þá veltu menn vöngum yfir vægi annarra þátta í mati umsókna, t.d. alþjóðlegu samstarfi. Sigurður svaraði því til að umsækjendum væri frjálst að draga fram öll þau atriði sem bætt gætu matið á verkefnum en að mikilvægast væri að færa góð rök fyrir þessum atriðum og hvaða forsendur væru þar að baki.

Þátttakendum var bent á í lok fundar að ef fleiri spurningar vakna væri alltaf hægt að leita svara hjá starfsmönnum Rannís og einnig væri hægt að koma athugasemdum um það sem betur mætti fara í umsókna- og matsferlinu til fulltrúa SSP og SI.