Fréttasafn



15. mar. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Fjórar af sex sviðsmyndum gera ráð fyrir að loftslagsmarkmiðum sé náð

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs, ásamt Andrési Inga Jónssyni, alþingismanni, eru viðmælendur Kristjáns Kristjánssonar í Sprengisandi á Bylgjunni þar sem hann ræðir við þau um nýútkomna skýrslu um orkuþörf þar sem lagðar eru fram sex mismunandi sviðsmyndir. Heiti skýrslunnar er Staða og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum.

Sigríður segir að munurinn á sviðsmyndunum sem koma fram í skýrslunni, sem sé allt frá núll prósentum upp í 125% viðbótarorkuþörf, felist í því hvort ná eigi loftslagsmarkmiðum sem íslensk stjórnvöld hafa sett. Fjórar af þessum sex sviðsmyndum geri ráð fyrir að loftslagsmarkmiðum séð náð og þá sé viðmiðið allt frá 68% upp í 125%. „Þannig að sviðsmyndirnar sem að gera ráð fyrir engri viðbótarorkusköpun fyrir jú utan sviðsmynd Landverndar. Til að mynda sviðsmyndir Orkustofnunar gera ráð fyrir 9-14% viðbótarraforkuframleiðslu eða -þörf. Þær taka þá ekki tillit til þess að ætlum að fasa hérna út jarðefnaeldsneyti og verða jarðefnaeldsneytislaus árið 2040. Þannig að það fer bara eftir þeim forsendum sem við gefum okkur. En það er alveg ljóst að ef við ætlum að ná loftslagsmarkmiðum og ná markmiðum um jarðefnaeldsneytislaust Ísland þá snýr meginþörfin að því. Þetta er orka sem við erum að nota í dag í formi olíu og jarðefnaeldsneytis sem við ætlum að fasa út og skipta yfir í græna orku. Þá er þetta spurning ætlum við að nota okkar eigin grænu innlendu orku. Ef svarið við því er já þá er orkuþörfin að aukast alveg gríðarlega mikið.“

125% viðbótarorkuþörf ef fara á í full orkuskipti

Sigríður segir að þegar ýtrasta sviðsmyndin sé skoðuð sem sé unnin af óháðum aðila í tengslum við vetnisvegvísinn sem sé vinnuskjal í þáverandi atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu sem sé núna komið í vinnslu í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. „Vetnisvegvísirinn gerir ráð fyrir og er unnin af ráðgjafa sem heitir Roland Berger. Hann gerir þá ráð fyrir 125% viðbótarorkuþörf ef við ætlum að fara í full orkuskipti í millilandafluginu líka, í lofti, landi og hafi þá erum við að tala um 125% viðbótarframleiðslu eða orkuþörf. Ekkert af því tekur þá til viðbótarorku í iðnað.“

Engin viðbótarorkuframleiðsla gerir ráð fyrir engum hagvexti á mann

Þá nefnir Sigríður sviðsmynd Samorku sem hafi verið mest í umræðunni. „Hún gerir ráð fyrir að loftslagsmarkmiðum stjórnvalda sé náð. Tveir þriðju hlutar af þessum 124% sem Samorka gerir ráð fyrir eru vegna þess að við erum að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna innlenda orku.“ Sigríður segir að ekkert af þessu sé útflutningur á orku eða útflutningur á rafeldsneyti til annarra ríkja. „Svo er það Landverndarsviðsmyndin. Hún er tekin þarna inn líkt og aðrar. Hún gerir ráð fyrir engri viðbótarorkuframleiðslu en á móti svarar því ekki þá hvernig á nákvæmlega að gera þetta. Þá er forsenda þeirra að það verði engin hagvöxtur á mann hér á landi. Það verði engin aukning á landsframleiðslu á mann næstu 30 árin.“ 

Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni þar sem Kristján ræðir við þau Sigríði og Andrés Inga.

Sprengisandur á Bylgjunni, 14. mars 2022.