Fréttasafn



24. ágú. 2017 Almennar fréttir Menntun

Fleiri nýnemar í HR í ár en í fyrra

Það eru fleiri nýnemar sem hefja nám í Háskólanum í Reykjavík núna en í fyrra eða um 1.340 nýnemar sem er um 7% fjölgun frá síðasta skólaári. 908 nemar hefja grunnnám, 283 meistaranám og 152 frumgreinanám. Að auki stunda um 140 erlendir skiptinemar nám við HR á þessari önn. Það eru því um 1.500 manns sem hófu nám við HR í liðinni viku.

Flestir nýnemar hófu nám í tækni- og verkfræðideild en mesta fjölgun nýnema er í lagadeild þar sem nýnemum í grunnnámi og meistaranámi í lögfræði fjölgar um þriðjung á milli ára. Á skólaárinu sem nú er hafið stunda um 3.600 nemendur nám við HR í viðskiptadeild, lagadeild, tölvunarfræðideild, tækni- og verkfræðideild og frumgreinadeild.