Fréttasafn



31. ágú. 2017 Almennar fréttir

Forseti Íslands tekur áskorun framkvæmdastjóra SI

Í Viðskiptablaðinu í dag skorar Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, á forseta Íslands að vinna með samtökunum að því að íslensk hönnun og framleiðsla sjáist á Bessastöðum en í viðtalinu segist Sigurður sakna þess þegar hann komi í opinberar byggingar að sjá íslenska framleiðslu og hönnun. Hann segir að á Bessastöðum gætu íslenskir framleiðendur stillt upp handbragði sínu og hönnun á fallegan hátt svo almenningi gæfist kostur á að sjá hvernig þetta kæmi út. Slíkt gæti verið dæmi um stefnumótun hins opinbera til að gefa einkafyrirtækjum tækifæri til að byggja upp sterkan iðnað. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur þegar sent Samtökum iðnaðarins bréf þess efnis að hann þakki áskorunina sem birtist í blaðinu í dag og taki henni fagnandi. Hann nefnir að búið sé að þjófstarta verkefninu með því að setja upp í gærdag nýja bókahillu sem prýðir bókhlöðuna á Bessastöðum en um sé að ræða vandaða íslenska smíði. Ákveðið hefur verið að efna til fundar í kjölfar beiðni frá SI þess efnis.