Fréttasafn



13. feb. 2024 Almennar fréttir

Framboð til stjórnar SI

Framboðsfrestur til stjórnar Samtaka iðnaðarins auk fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins rann út föstudaginn 9. febrúar. Alls bárust níu framboð til stjórnar SI og eitt framboð til formanns SI. Í ár er kosið um sæti formanns og fimm almenn stjórnarsæti.

Framboð til formanns

Árni Sigurjónsson, yfirlögfræðingur Marel

Það hafa verið einstök forréttindi að leiða Samtök iðnaðarins á undanförnum fjórum árum og fá að taka þátt í að ná þeim árangri sem við höfum í sameiningu náð fyrir íslenskan iðnað á miklum umbrotatímum. Mínu öðru kjörtímabili sem formaður SI lýkur á komandi Iðnþingi. Ég er reiðubúinn til áframhaldandi starfa fyrir íslenskan iðnað og óska á ný eftir áframhaldandi stuðningi ykkar og trausti í embætti formanns SI.

Ég hef starfað hjá Marel í tæp 15 ár og tekið virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá félaginu bæði hérlendis og á heimsvísu. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími og verkefnin og viðfangsefnin hafa verið afar fjölbreytt. Það er í senn áskorun og forréttindi að starfa hjá íslensku félagi sem er leiðandi á sínu sviði á alþjóðamarkaði, hvort heldur sem er í meðvindi eða mótvindi.

Ég hef setið í stjórn SI frá árinu 2016 og hef verið formaður samtakanna frá árinu 2020. Þá hef ég jafnframt setið í stjórn Samtaka atvinnulífsins sl. átta ár og í framkvæmdastjórn SA sl. sjö ár.

Stór hagsmunamál og verkefni bíða úrlausnar á komandi misserum. Margháttaðar áskoranir eru í efnahagsmálum um þessar mundir og glíman við verðbólguna, hátt vaxtastig og almennt efnahagslegt ójafnvægi hefur tekið sinn toll, bæði hjá atvinnurekendum og launþegum. Fyrir dyrum stendur gerð nýrra kjarasamninga sem verða að stuðla að auknum fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu og vinna gegn verðbólgu og háu vaxtastigi.

Auk þessa verða orkumál, þjóðhagslegir innviðir, menntamál, nýsköpun, húsnæðismál og málefni byggingar- og matvælaiðnaðar vafalítið einna helst í deiglunni á þessu 30 ára afmælisári Samtaka iðnaðarins. Verkefninu lýkur aldrei og metnaður minn til frekari árangurs á öllum þessum sviðum er mikill, í þágu íslensks iðnaðar og samfélagsins alls. 

Framboð til stjórnar

Arna Arnardóttir, gullsmiður

ArnaUndanfarin fjögur ár hef ég setið í stjórn Samtaka iðnaðarins (SI). Ég hef haft mikla ánægju af því að geta liðsinnt öflugu starfi samtakanna í þann tíma og mun því bjóða áfram fram krafta mína og gef kost á mér til endurkjörs.

Ég er þeirrar skoðunar að í stórum samtökum eins og Samtökum iðnaðarins sé nauðsynlegt að bæði fulltrúar stærri og minni iðngreina eigi sæti við stjórnarborðið og endurspegli þannig fjölbreytileika og breidd þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að samtökunum hverju sinni.

Ég hef starfað sem gullsmiður síðastliðin 15 ár. Ég útskrifaðist frá Tækniskólanum - skóla atvinnulífsins árið 2009 sem gullsmiður og lauk námi til meistararéttinda frá sama skóla ári síðar. Áður starfaði ég sem garðyrkjufræðingur en ég útskrifaðist frá Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1992. Ég hef verið formaður Félags íslenskra gullsmiða undanfarin áratug eða frá árinu 2012. Í formannstíð minni hef ég komið að margvíslegum verkefnum fyrir mitt fag og aðrar iðngreinar.

Ég hef setið í stjórn Tækniskólans sl. fjögur ár. Þar höfum við tekist á við ýmsar áskoranir m.a. fundið framtíðarhúsnæði fyrir skólann við Suðurhöfnina í Hafnarfirði. Samhliða setu minni í stjórn SI hef ég átt sæti í stjórn Samtaka atvinnulífsins. Einnig hef ég átt sæti í starfsgreinaráði, nefnd á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem veitir ráðherra ráðgjöf um málefni starfsmenntunar fyrir handverk og hönnunargreinar. Þá sat ég jafnframt í stjórn Hönnunarmiðstöðvar og Hönnunarmars á árunum 2011- 2019.

Gerum iðnmenntun eftirsóknarverðari hjá ungu fólki Menntamál í iðnaði hafa verið mér hugleikin síðastliðin ár. Ég vil gjarnan að við sem látum okkur iðnaðinn varða náum þeim árangri að iðnmenntun verði í auknu mæli fyrsta val hjá grunnskólanemum við lok hefðbundinnar skólagöngu. Ef við náum að virkja atvinnulífið og iðnmenntaskóla í auknu mæli með samtali þá er ég sannfærð um að okkur mun takast að gera iðnmenntun eftirsóknarverðari hjá ungu fólki.

Framfylgd iðnaðarlaga er allra hagur Þá er ég þeirrar skoðunar að brýnt sé að fundnar séu raunhæfar leiðir til að framfylgja iðnaðarlögum en nú er sú staða uppi að eftirliti með ólöglegri starfsemi er mjög ábótavant. Það er allra hagur að lögunum sé fylgt eftir.

Samkeppnishæf rekstrarskilyrði Ég er þeirrar skoðunar að tryggja beri íslenskum iðnaði samkeppnishæf rekstrarskilyrði en íslenskur iðnaður hefur átt undir högg að sækja í alþjóðlegri samkeppni. Þar vega auðvitað þungt skattar og gjöld en eðli málsins samkvæmt koma jafnframt aðrar breytur til.

Nái ég endurkjöri í stjórn Samtaka iðnaðarins mun ég áfram starfa af heilindum í þágu alls iðnaðarins. Það er mín von að mitt framlag geti áfram nýst í þágu þeirrar fjölbreyttu flóru starfsgreina sem starfa innan vébanda samtakanna.  

Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Kjarnafæði Norðlenska hf.

Mynd-ATH-2-Ég, Ágúst Torfi Hauksson forstjóri Kjarnafæðis Norðlenska hf., býð fram krafta mína til stjórnarstarfa í Samtökum iðnaðarins. Ég er vélaverkfræðingur og vélstjóri að mennt, búsettur á Akureyri.

Í störfum mínum hef ég öðlast talsverða innsýn í íslenskt atvinnulíf og snert það frá ýmsum hliðum. Hef verið stjórnandi í fyrirtækjum síðastliðin tæp 19 ár, í sjávarútvegi, í orkugeiranum og svo undanfarin ár í matvælageiranum, úrvinnslu landbúnaðarafurða, þar sem ég hef farið fyrir Norðlenska frá árinu 2015 og Kjarnafæði Norðlenska hf. eftir sameiningu félaganna Kjarnafæðis hf. og Norðlenska matborðsins ehf. árið 2021.

Ég tel að reynsla mín og bakgrunnur geti nýst vel við stjórnarborðið hjá Samtökum iðnaðarins. Hagsmunagæsla samtakanna er afar mikilvæg og nauðsynlegt að samtökin standi vaktina fyrir og með aðildarfélögum. Reynslan af því að hafa leitt sameiningu fyrirtækja undir vökulu auga Samkeppniseftirlitsins og að starfa í greinum sem eru á stundum pólitískt bitbein, og mjög háðar opinberu regluverki hefur kennt mér að öflug samtök atvinnurekenda geta skipt sköpum. Samtök iðnaðarins eiga að berjast fyrir því að íslensk iðnfyrirtæki geta starfað við eðlileg rekstrarskilyrði, regluverk sé fyrirsjáanlegt og skapi eðlilegt samkeppnisumhverfi bæði innanlands og við vörur og þjónustu erlendis frá.

Íslenskur iðnaður er á mörgum sviðum í fremstu röð og miklar kröfur gerðar til hans. Við eigum að vera stolt af þeirri stöðu en tryggja um leið að kröfur opinberra aðila hvað varðar starfsemi og samkeppnisumhverfi hér á landi taki mið af sérstöðu okkar og markaði þannig að rétt sé gefið.

Njóti ég traust til starfa í stjórn Samtaka iðnaðarins hlakka ég til að leggjast enn frekar á árar með íslenskum iðnaði og atvinnulífi.

Bergþóra Halldórsdóttir, í framkvæmdastjórn Borealis Data Center

Bergthora-BDC-23-05-03-00006-ResizeÉg hef óþrjótandi áhuga á að taka þátt í að bæta og efla starfsumhverfi íslensks atvinnulífs og þar með undirstöður verðmætasköpunar í íslensku samfélagi. Áður en ég tók sæti í framkvæmdastjórn Borealis Data Center, sem á og rekur meðal annars gagnaver á Blönduósi og í Reykjanesbæ, hafði ég aflað mér mikillar reynslu í störfum fyrir stuðningskerfi atvinnulífs, á vettvangi Samtaka atvinnulífsins, Íslandsstofu og Samtökum iðnaðarins auk þess að hafa starfað innan stjórnsýslunnar. Ég er því vel kunnug áskorunum sem íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir í samskiptum við hið opinbera og veit hve mikilvægt er að hafa vel skipulagt stuðningsumhverfi sem styður við félagsmenn og hvetur til framfara. Ég sit nú í Hugverkaráði Samtaka iðnaðarins en hef einnig sem ráðgjafi komið að stefnumótun fyrir aðra starfsgreinahópa samtakanna og þekki því vel til þeirra fjölbreyttu áherslna sem unnið er að á vegum samtakanna.

Íslensk iðnfyrirtæki hafa í gegnum tíðina sýnt að þau láta verkin tala og skapa þau uppistöðu fjölbreytts atvinnulífs hér á landi. Ísland skorar hátt í ýmsum alþjóðlegum samanburði en þegar kemur að því hvernig við skipuleggjum okkur, hversu skilvirk stjórnsýslan okkar er eða hvernig er fyrir erlenda aðila að eiga við okkur viðskipti þá sýna mælingar að við getum gert betur. Samtök iðnaðarins sem hafa verið óþreytandi við að hvetja til aðgerða í þágu framfara í starfsumhverfi og aukinnar samkeppnishæfni Íslands og að þeim verkefnum þarf áfram að vinna af elju. Ég tel mig vel til þess fallna að vinna að því markmiði og hafa sýnt hæfni mína til þeirra verkefna í störfum mínum.

Það er mér því mikil ánægja að bjóða mig fram til setu í stjórn Samtaka iðnaðarins og hafa áhrif á framtíð íslensks atvinnulífs og samfélags. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum í þágu félagsmanna samtakanna og til að stuðla að áframhaldandi framförum og velgengni.

Nánar um menntun, starfsferil og önnur verkefni má finna hér: LinkedIn | Bergþóra Halldórsdóttir

Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. Bíldudal

Passam_HH_MblVið vinnum kalkþörunga til manneldis og fóðurframleiðslu. Erum í eigu írsks fyrirtækis og því hluti af alþjóðlegri keðju.

Menntun er viðskiptafræði, MBA og mastersgráða í mannauðsstjórnun, grunnur í iðngreinum.

Störf í sjávarútvegi, sveitarstjórnarmálum og rekstri eigin fyrirtækja með áherslu á nýsköpun og frumkvöðla.

Í viðtölum við félagsmenn fyrir tveimur árum kom skýrt fram að félagsmenn vildu heyra meira í stjórnarmönnum SI. Ég hef lagt mig fram við það en ég hef skrifað yfir 10 greinar á þessum tveimur árum fyrir utan viðtöl og þátttöku í málþingum og ráðstefnum. Án öflugra fyrirtækja með réttlátt rekstrarumhverfi gerist ekkert af viti og verðmæti verða ekki til, fyrir því þarf að tala.

Bæta þarf innviða- og leyfismál. Hefur sú staðreynd aldrei verið skýrari en eftir þau áföll sem dunið hafa yfir síðustu misseri.

Áherslumálin falla vel að stefnu SI sem með faglegri nálgun og af ábyrgð og umhyggju fyrir velsæld fyrirtækja í iðnaði, og þar með velsæld þjóðarinnar, hefur unnið mikið starf.

1. Raforkumálin á Íslandi þarf að taka fastari tökum og einfalda allt leyfisveitingakerfið

2. Leyfismál, umhverfismat og slíkt er svifaseint og þungt. Gera þarf nauðsynlegar breytingar svo stofnanir fari að lögum varðandi fresti

3. Hreinsa þarf til í íþyngjandi regluverki og gera kröfu um að stofnanir starfi með atvinnulífinu en telji sig ekki hafnar yfir slíkt. Það á við um Skattinn sem aðrar stofnanir hins opinbera

4. Kjaramálin eru mér hugleikin, bæta þarf vinnumarkaðsmódelið

5. Menntamálin hafa verið fyrirferðarmikil á vettvangi SI og vonandi sjáum við nýjan Tækniskóla rísa sem fyrst

6. Ég hef áhuga á eflingu stuðningskerfis við nýsköpun

7. Hagstjórn og húsnæðismálin, vextir og verðbólga er beintengt framboðsleysi á lóðum

Ég hef átt sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins í tvö ár og gef kost á mér áfram fyrir iðnfyrirtæki landsins í stjórn SI. 

Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri og meðeigandi VSB verkfræðistofa

Vsb_starfsmannamyndir_export_webSíðastliðin tvö ár hef ég setið í stjórn Samtaka iðnaðarins. Það hefur verið ánægjulegt að fá innsýn inn í öflugt starf samtakanna og spennandi að fá að hafa áhrif á það. Ég sækist nú eftir endurkjöri.

Ég er framkvæmdastjóri og meðeigandi VSB verkfræðistofu þar sem starfa um 40 manns. Ég er verkfræðingur og lauk námi í Danmörku þar sem ég bjó í tæp tíu ár. Mitt sérsvið er hagnýting stafrænnar tækni í mannvirkjageiranum og leiddi ég þróun á því sviði fyrir stærstu byggingarverktaka Danmerkur. Árið 2018 flutti ég aftur heim og hóf störf hjá VSB verkfræðistofu.

Það er mikilvægt að fyrirtækin í landinu leggi sitt af mörkum við að bæta starfsumhverfi sitt og að þau stuðli að framþróun. Það er kjörið að gera það með þátttöku í Samtökum iðnaðarins. Ég hef reynt að leggja mitt af mörkum. Í Danmörku tók ég þátt í starfi Dansk Byggeri. Hér á landi hef ég tekið þátt í starfi BIM Íslands, FRV, hef sinnt kennslu í HR auk þess að sitja í stjórn SI.

Að baki Samtökum iðnaðarins stendur fjölbreyttur hópur fyrirtækja og aðildarfélaga. Heilt yfir standa þau frammi fyrir sambærilegum áskorunum sem þarf að leysa.

  • Meiri stöðugleika. Reglulega ganga yfir hagsveiflur sem raska uppbyggingu fyrirtækja verulega - sérstaklega í byggingariðnaðinum.
  • Öflugt starfsfólk. Auka þarf vægi STEM greina í háskólanámi. Tryggja þarf til framtíðar árangur sem hefur náðst í að auka aðsókn að iðnnámi og að fjölga námsplássum.
  • Örugg hrein orka. Nýleg dæmi sýna að aðgengi að orku er brothætt. Tryggja þarf orku fyrir orkuskiptin og fyrirsjáanleika þar um.
  • Stuðningur við nýsköpun og rannsóknir. Fyrirsjáanleika fyrir þau fyrirtæki sem leggja sitt af mörkum við að ryðja leiðina að framtíðinni. Endurskapa þarf rannsóknarumhverfi mannvirkjageirans.
  • Aukið samtal á milli greina og aðildarfélaga. Við getum lært mikið hvert af öðru.  

Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma

Jonina-Gudmundsdottir-PassamyndÉg er varaformaður Samtaka iðnaðarins og hef setið í stjórn samtakanna frá 2022, auk þess sem ég sit í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd SI.

Ég er lyfjafræðingur að mennt og hef sinnt ýmsum stjórnendastöðum hjá alþjóðlegum lyfjafyrirtækum, lengst af sem Vice Presedent Commercial Operation og staðgengill forstjóra Medis, dótturfyrirtækis Actavis – nú Teva. Ég tók við stöðu forstjóra Coripharma árið 2020, en félagið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á samheitalyfjum sem það flytur út til annarra lyfjafyrirtækja í Evrópu. Hjá Coripharma starfa um 190 manns. Nánari upplýsingar um starfsferilinn má sjá á LinkedIn.

Það hefur verið gaman að sjá hraða fjölgun aðildafélaga Samtaka iðnaðarins síðustu misseri og ber það þrotlausri vinnu starfsfólks og mikilvægi stefnumála samtakanna göfugt vitni.

Í gegnum störf mín hjá Coripharma sé ég mikilvægi þess að leggja áherslu á verðmætasköpun til framtíðar sem er drifin áfram af nýsköpun, vel menntuðu og hæfileikaríku vinnuafli og skilvirku og stöðugu starfsumhverfi. Það er jafnframt mikilvægt að gæta að samkeppnishæfni íslensks iðnaðar í framleiðslu og útflutningi.

Það er Samtökum iðnaðarins nauðsynlegt að hafa breiða skírskotun og að stjórnin standi fyrir sem fjölbreyttustum hópi einstaklinga með ólíkan bakgrunn og sem starfa á fjölbreittum sviðum samfélagsins. Ég vona að framboð mitt færi stjórn samtakanna nauðsynlega breidd og innsýn inn í hugverkaiðnað, rekstur sprotafyrirtækis í hröðum vexti sem og framleiðsluiðnað til útflutnings. Orkumálin eru mér einnig mjög hugleikin sem og samfélagsleg ábyrgð í rekstri, sem mun án efa skipta aðildarfélög SI stöðugt meira máli.

Samtök iðnaðarins gegna lykilhlutverki við að hlúa að hagsmunum fjölbreytts iðnaðar, viðhalda sterkri ímynd og þjónusta félagsmenn. Mér er annt um að auka verðmætasköpun frá íslenskum iðnaði og styrkja þannig stöðu Íslands til framtíðar og því gef ég kost á mér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Kolbrún Hrafnkelsdóttir, í stjórn Florealis ehf.

Kæri félagi, 

Ég býð fram krafta mína til stjórnar Samtaka iðnaðarins. Ég mun kappkosta við að tryggja íslenskum iðnaði samkeppnishæf rekstrarskilyrði með einföldun regluverks, aðgang að hæfu starfsfólki, kröftugri uppbyggingu innviða og aðgangi að orku að leiðarljósi.

Ef ég næ kjöri mun ég starfa í þína þágu og leggja áherslu á að:

- Standa varðstöðu um heilbrigt viðskiptaumhverfi, frjáls viðskipti og stöðuleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja.

- Stuðla að einföldun regluverks og eftirliti með auknu gagnsæi, styttingu leyfisferla og aðhaldi varðandi setningu íþyngjandi lagaákvæða.

- Vinna að innviðauppbyggingu um land allt, aðgangi að orku, betri samgöngum og þjónustu.

- Efla iðnaðar- og tæknimenntun, ásamt því að einfalda ferli við ráðningu erlendra sérfræðinga.

- Vinna að hagfelldu umhverfi hugverka- og tæknifyrirtækja.

- Leita leiða til að auðvelda atvinnulífinu að takast á við samfélagslegar og umhverfislegar áskoranir í rekstri, stuðla að betri þjónustu, leiðbeiningum og lagaumgjörð.

Ég er reyndur stjórnarmaður og bý yfir víðtækri reynslu af hagsmunagæslu, stjórnun og rekstri. Á starfsferli mínum hef ég tekið þátt í fjölmörgum atvinnuþróunarverkefnum og öðlast innsýn í þarfir bæði stórra og lítilla fyrirtækja. Ég leiði uppbyggingu grænna iðngarða í Ölfusi, þar hefur mikil uppbygging iðnaðar átt sér stað á undanförnum árum. Ég kem að fjölbreyttum verkefnum, tillögum að breytingum á regluverki, skipulagi iðnaðarsvæða, uppbyggingu innviða og orkutengdum verkefnum. Allt eru þetta verkefni sem stuðla að heilbrigðu starfsumhverfi, samnýtingu og hringrásarhugsun.

Ég er frumkvöðull, stofnandi lyfjafyrirtækisins Florealis og leiddi uppbyggingu þess fyrstu 10 árin. Ég hef verið ötull talsmaður hugverka- og tæknifyrirtækja. Ég hef mikla trú á að leiðin fram á við sé þróun og nýsköpun sem á heima bæði innan vaxtarfyrirtækja og þroskaðari félaga.

Ég sit í stjórn Florealis ehf. og fyrir hönd þess félags óska ég eftir þínum stuðningi til góðra verka í stjórn Samtaka iðnaðarins.

Nánari upplýsingar um náms- og starfsferilinn má sjá hér eða á Linkedin.

Sigþór H. Guðmundsson, yfirlögfræðingur Controlant hf.

Sigthor-H-GudmundssonSem yfirlögfræðingur Controlant hef ég kynnst því öfluga starfi sem starfsfólk Samtaka iðnaðarins vinnur, ekki aðeins í þágu félagsmanna heldur alls samfélagsins. Þessi kynni hafa kveikt hjá mér áhuga og metnað til að taka meiri þátt í starfi samtakanna og því býð ég mig fram til setu í stjórn.

Á 25 ára starfsferli hef ég komið að fjölbreyttum verkefnum og rekstri fyrirtækja innanlands og erlendis. Ytra teygðu störfin sig gjarnan yfir landamæri og því kynntist ég vel mismunandi regluverki og rekstrarumhverfi fyrirtækja. Sú reynsla er dýrmæt og þekkinguna vil ég nýta í þágu íslensks iðnaðar, því enda þótt rekstrarumhverfið hérlendis sé ágætt hefur flækjustigið aukist með tilheyrandi óhagræði og kostnaði. Þess vegna er barátta SI fyrir einfaldara regluverki svo mikilvæg og hana vil ég styðja með ráðum og dáð – útrýma svokallaðri gullhúðun og draga úr skrifræði. Þarfir 1.700 aðildarfyrirtækja SI eru mismunandi, en öll njóta þau góðs af einfaldara regluverki, stöðugra rekstrarumhverfi og lægri kostnaði.

Íslenskt atvinnulíf hefur breyst mikið á undanförnum áratugum, með aukinni fjölbreytni og verðmætasköpun. Iðnaðurinn hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum, ekki síst tækni-, nýsköpunar og hugverkageirinn sem hefur skotið nýrri stoð undir hagkerfið. Mikilvægt er að efla þá starfsemi enn frekar, nýta þekkinguna og hugvitið sem býr í fyrirtækjunum og sjá til þess að fleiri verði til. Orkumálin eru líka meðal brýnustu mála samtímans, en þar hefur flókið regluverk valdið samfélaginu ómældu tjóni og einföldun gæti skilað miklum ávinningi. Það sama má segja um húsnæðismálin, þar sem þörfin er brýn, en kerfislægur vandi tefur aukið framboð. Hér þarf að bregðast skjótt við, ekki síst vegna þeirrar óvæntu stöðu sem skapast vegna búferlaflutninga í kjölfar jarðhræringa á Reykjanesi.

Forystusveit Samtaka iðnaðarins ber mikla ábyrgð, sem ég vil taka þátt í að axla. Ég trúi því að reynsla, þekking og brennandi áhugi minn á hagsmunum iðnaðarins nýtist samfélaginu öllu.

Vignir Steinþór Halldórsson, starfandi stjórnarformaður Öxar Byggingafélags

Vignir_164483374569548 húsasmíðameistari og þriggja barna faðir búsettur í Kópavogi. Ég er starfandi húsasmíðameistari á höfuðborgarsvæðinu og hef komið að byggingu á nokkur hundruð íbúðum. Ég er stjórnarformaður í Öxar byggingafélagi. Áhugamálin eru margvísleg, mér finnst sérstaklega gaman að prófa eitthvað nýtt en síðustu misserin hefur golfið og skíðamennska tekið mest af mínum tíma.

Ég býð mig fram til áframhaldandi setu í stjórn Samtaka iðnaðarins hvar ég hef setið síðast liðinn fjögur ár. Ég tel mig hafa haldið sjónarmiðum byggingariðnaðarins uppi í störfum mínum og sækist eftir að standa áfram vörð um hann og önnur góð málefni.

Alla mína tíð hef ég verið áhugamaður um félagsstörf og brenn fyrir því að vinna fyrir íslenskan iðnað og íslenska framleiðslu. Ég tel mig hafa sýnt það í störfum mínum alveg frá því að ég hóf nám í húsasmíði þar sem ég barðist fyrir vegsemd og virðingu iðnáms.

Á þessum óróa tímum sem við lifum núna, íbúðamarkaðurinn stendur ekki undir eftirspurn, tel ég að SI þurfi öflugan talsmann í stjórn sem starfar við framleiðslu íbúða og finnur á eigin skinni hvað betur má fara í iðnaði á Íslandi.

Helstu áherslumál mín eru m.a.:

- Menntamál. Nú þegar markmiði um að gera iðnám vinsælt hefur tekist þá eru innviðir skólanna í ólestri. Ég mun leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að koma þeim í lag fljótt og örugglega.

- Að bæta rekstrarumhverfi íslensks iðnaðar er endalaus barátta sem hvergi má slá slöku við.

- Bæta skattaumhverfi íslenskra iðnfyrirtækja til að gera þau samkeppnishæfari.

- Einfalda ferlið við að leyfisveitingar og finna leiðir til að gera samskipti við opinbera aðila einfaldari og skilvirkari.

- Halda áfram öflugum stuðningi við tækniþróum íslensks iðnaðar, en það er sérstakt áhugamál mitt að halda okkur þar í fremstu röð.