Fréttasafn



26. apr. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Framboðsskortur húsnæðis alvarlegt vandamál

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í Morgunútvarpinu á RÚV um stöðuna á húsnæðismarkaðnum. Þar kemur meðal annars fram að það ójafnvægi sem sé á markaðnum enduspeglist í tölunum þar sem fjöldi nýrra íbúða á söluskrá hafi farið úr því að vera á landinu öllu nálægt 1.300 í rétt ríflega 150 á tveimur árum. Samhliða hafi verð íbúða hækkað til muna en yfir síðustu tólf mánuði hafi verð íbúða hækkað um ríflega 19%. Verðhækkunin hafi birst í aukinni verðbólgu sem nú mælist 6,7% og Seðlabankinn hafi fundið sig knúinn til að bregðast við með hækkun vaxta um 2 prósentustig á tæplega ári.

Ingólfur segir að uppbygging húsnæðis sé fjárfesting í hagvexti framtíðarinnar líkt og uppbygging innviða á borð við raforkukerfi, samgöngukerfi og gagnatengingar. Mannauðurinn sem sé grundvöllur verðmætasköpunar hagkerfisins þurfi húsnæði. Það sé því alvarlegt mál þegar framboðsskortur verði á húsnæði líkt og verið hafi undanfarið. Húsnæðisskortur leiði til efnahagslegs ójafnvægis sem komi niður á hagvexti og lífsgæðum.

Þá kemur fram í máli Ingólfs að Samtök iðnaðarins fagni því að nú standi til að ráðast í frekari endurbætur á regluverki og stjórnsýslu húsnæðismála. Mikilvægt sé að nægt fjármagn sé tryggt til verkefnisins þar sem ávinningurinn verði margfalt meiri. Leggja þurfi ríka áherslu á að tryggja áframhaldandi þróun á uppbyggingu húsnæðisgrunns HMS til upplýsingaöflunar og miðlunar um húsnæðismarkaðinn og frekari endurskoðun byggingarmála sem stuðli að lækkun byggingarkostnaðar, bættu regluverki og gæðum.

Á vef RÚV er hægt að nálgast viðtalið í heild sinni.

RÚV, 25. apríl 2022.