Fréttasafn



25. okt. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Framleiðsluráð SI kynnti sér starfsemi CCEP

Framleiðsluráð SI fundaði í gær í húsnæði  Coca-Cola European Partners Ísland, CCEP, við Stuðlaháls og kynnti sér starfsemi fyrirtækisins. Meðal annars var skoðuð afkastamikil vatnshreinsistöð sem byggð var 2011, en stöðin hreinsar allt affallsvatn og skólp frá verksmiðjunni. Þetta er eina hreinsistöð sinnar tegundar hér á landi og skilar hún eingöngu tandurhreinu vatni út í skolpræsikerfi borgarinnar. Á myndinni hér fyrir ofan er hluti þeirra sem sitja í Framleiðsluráði SI, talið frá vinstri, Einar Sveinn Ólafsson hjá Ískalk, Andri Daði Aðalsteinsson hjá Límtré-Vírnet, Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir hjá Prentmet, Guðrún Halla Finnsdóttir hjá Norðuráli, Stefán Magnússon hjá CCEP og Guðrún Birna Jörgensen, viðskiptastjóri á framleiðslusviði SI.

Á fundinum var meðal annars kynnt umhverfisstefna alþjóðafyrirtækisins CCEP og hvernig stefnan hefur verið innleidd á Íslandi, en unnið hefur verið markvisst að aukinni sjálfbærni fyrirtækisins hér á landi. Í stefnunni er leitast við að vernda og bæta umhverfið með því að:

  • Þekkja, skrá og meta þau umhverfisáhrif sem af starfsemi félagsins leiðir.
  • Uppfylla viðeigandi kröfur stjórnvalda og samstarfsaðila í umhverfismálum.
  • Vinna að stöðugum umbótum í umhverfismálum í samvinnu við almenning, viðskiptavini og stjórnvöld.
  • Lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið með aðgerðum sem draga úr mengun og losun úrgangs, stuðla að aukinni endurvinnslu og auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa í starfseminni.