Fréttasafn



5. des. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Frumkvöðlar fái tækifæri til að hanna miðlæga þjónustugátt

Samtök iðnaðarins ítreka mikilvægi þess að hið opinbera notist við lausnir sem nú þegar eru til staðar á markaðnum en ef fullnægjandi lausnum er ekki til að dreifa þá er mikilvægt að frumkvöðlar á sviði tæknilausna fái tækifæri til að hanna miðlæga þjónustugátt fyrir island.is. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka iðnaðarins sem send hefur verið á fjármála- og efnahagsráðuneytið um Stafrænt Ísland - Tæknistefna island.is.  

Þar segir jafnframt að í ljósi aðgerða í þágu nýsköpunar á Íslandi sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti á Tækni- og hugverkaþingi SI telji samtökin mjög mikilvægt að haft verði að leiðarljósi við mótun miðlægrar þjónustugáttar undir merkjum island.is að hluta fjárveitinganna verði varið í aðkeyptar nýsköpunarlausnir. SI telja afar mikilvægt að þetta sjónarmið verði haft að leiðarljósi við ákvörðun um það hver þróar lausnir fyrir tæknistefnuna island.is. Þá kemur fram að samtökin leggi einnig til að skýrt verði kveðið á um útfærslu rekstrarforms island.is í tæknistefnunni. Ríkið sé að selja aðgang að island.is í samkeppni við einkaaðila. Í stefnunni þurfi að taka tillit til þess að hvaða leyti heimilt sé að veita fyrirtækjum aðgang að umræddum lausnum í einkarekstri sínum og hvernig skuli aðskilja þann hluta rekstrarins frá opinberum rekstri.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.