Fréttasafn



8. jún. 2022 Almennar fréttir

Fulltrúar atvinnulífsins á fundi Business Europe

Formenn og framkvæmdastjórar Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins sóttu fund Business Europe í Prag í Tékklandi 3. júní. SA og SI eiga aðild að Business Europe sem eru hagsmunasamtök sem beita sér fyrir vexti og samkeppnishæfni fyrirtækja á evrópskum vettvangi. 40 aðildarsamtök fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum í 35 Evrópulöndum eru meðlimir Business Europe.

Á vef SA kemur fram að stríðið í Úkraínu og afleiðingar þess á efnahagslíf í Evrópu hafi verið aðal umræðuefni fundarins en að auki hafi verið rætt um áhrif verðbólgu, rof í virðiskeðjum og þau mál sem eru á döfinni hjá Evrópusambandinu. Aðildarsamtök Business Europe fordæmdu innrásina í Úkraínu og áréttuðu að Evrópusambandið verði að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að verja alþjóðalög og styðja Úkraínu og íbúa landsins. Aðilar Business Europe hafa frá upphafi staðið að baki viðskiptaþvingunum á Rússland.

Á fundinum var tilkynnt um nýjan forseta Business Europe sem er kjörinn til 2ja ára. Það er Fredrik Persson frá Svíþjóð sem tekur við af Pierre Gattaz.

Hér er hægt að nálgast ályktun fundarins. 

Á myndinni eru Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, Heiðrún Björk Gísladóttir, fastafulltrúi hjá Business Europe, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, og Árna Sigurjónsson, formaður SI.

Mynd1_1654686706400Þátttakendur á Business Europe fundinum.

Mynd2_1654686720319