Fréttasafn



10. nóv. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Fulltrúar SI á COP27

Árið 2022 er helgað grænni iðnbyltingu í starfi Samtaka iðnaðarins og hafa samtökin vakið athygli á fjölbreyttu framlagi félagsmanna til loftslags- og umhverfismála. Samtök iðnaðarins voru í fararbroddi við stofnun Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um grænar lausnir og loftslagsmál og er framkvæmdastjóri SI formaður stjórnar Grænvangs.

Fulltrúar Samtaka iðnaðarins sækja loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP27, sem haldin er í Egyptalandi. Tilgangur fararinnar er meðal annars að miðla því hvað íslenskur iðnaður hefur fram að færa í loftslagsmálum, ekki síst með hugviti og nýsköpun á sviði orku- og loftslagsmála. Ennfremur munu SI kynna sér hvernig önnur ríki beita sér í grænni iðnbyltingu og hvernig Íslendingar geta lært af því.

Fulltrúar SI, þau Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, og Lárus M.K. Ólafsson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, verða í þrjá daga á ráðstefnunni í síðari viku hennar en hún stendur yfir í um tvær vikur. Í seinni vikunni verður sjónum beint að fjölmörgum verkefnum sem unnið er að til að ná árangri í umhverfis- og loftslagsmálum. Meðal annars verður fjallað um orkuskipti, orkunýtni, græna orku og tækniþróun á því sviði auk þess sem fjallað verður um hugvit og nýsköpun á sviði loftslagsmála.