Fréttasafn



26. sep. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Fulltrúi SI á nýsköpunar- og tækniráðstefnu í Kaupmannahöfn

Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, sótti nýverið nýsköpunar- og tækniráðstefnuna TechBBQ í Kaupmannahöfn. Ráðstefnan var fyrst haldin árið 2013 þegar mættu 300 gestir en á liðnum áratug hefur henni vaxið fiskur um hrygg og nú eru gestir í kringum 4.000 talsins. Á ráðstefnunni er fjallað um ólíka þætti nýsköpunar og hugverkaiðnaðar og ljósi varpað á stuðningsumhverfi í Evrópu, en Danmörku sérstaklega.

Stjórnmálamenn jafnt sem frumkvöðlar taka þátt í ráðstefnudagskránni og hún er því einstaklega fjölbreytt. Þannig var til að mynda fjallað um allt frá vexti nýsköpunarfyrirtækja í Danmörku og áhrif hins opinbera á þá vegferð til geðheilsu frumkvöðla og stofnenda og svo að tækninni á bak við skammtatölvur.

Samhliða ráðstefnunni gefur miðstöðin Innovation Centre Denmark (ICDK) út skýrsluna „Global Tech Trends“ sem fjallar um helstu framfarir í tækni og áherslur tækniheimsins á komandi árum.

Nanna Elísa var hluti af sendinefnd frá Íslandsstofu en tugur íslenskra fyrirtækja sækir ráðstefnuna árlega. Innovation Week og Íslandsstofa stóðu fyrir viðburði á ráðstefnunni fyrir áhugasama um íslenska nýsköpunarumhverfið.

Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, tók þátt í nýsköpunar- og tækniráðstefnunni TechBBQ í Kaupmannahöfn.