Fréttasafn



22. nóv. 2018 Almennar fréttir

Fundur um stjórnvaldssektir fyrir brot á efnalögum

Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Umhverfisstofnun standa fyrir kynningarfundi um reglugerð nr. 590/2018 um stjórnvaldssektir fyrir brot á efnalögum á morgun föstudaginn 23. nóvember kl. 08.30-10.00 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, fundarsalnum Hyl á 1. hæð.

Efni, efnablöndur og hlutir sem innihalda efni eru allt í kringum okkur og gilda um þau ákveðnar reglur til að lágmarka áhættu sem fylgir notkun þeirra. Íslensk löggjöf í þessum málaflokki byggir á löggjöf Evrópusambandsins og fylgir Ísland þannig stefnu þess í málaflokknum. Í efnalögum nr. 61/2013 er Umhverfisstofnun falið það hlutverk að hafa umsjón með framkvæmd laganna, upplýsa almenning um hættu tengda notkun á efnum, hafa eftirlit með meðferð og markaðssetningu o.fl.

Umhverfisstofnun vinnur samkvæmt eftirlitsáætlun sem útbúin er í samræmi við efnalög og stendur fyrir eftirliti með tilteknum flokkum efnavara, sem að mestu leyti er úrtakseftirlit, en auk þess berast reglulega ábendingar í tengslum við markaðssetningu efnavara sem stofnunin fylgir eftir með eftirlitsferð.

Samkvæmt efnalögum getur Umhverfisstofnun lagt stjórnvaldssektir á einstaklinga eða lögaðila sem brjóta gegn tilteknum ákvæðum efnalaganna. Kveðið er á um fjárhæð og beitingu slíkra sekta í reglugerð nr. 590/2018 um stjórnvaldssektir fyrir brot á efnalögum sem tók gildi 15. maí síðastliðinn.

Á fundinum verður fjallað almennt um reglugerðina og stjórnvaldssektir auk þess sem farið verður yfir hvers konar brot geta leitt til álagningar stjórnvaldssekta.

Hér er hægt að skrá sig á fundinn.