Fréttasafn



2. jan. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Furðar sig á orðræðu um skort á verktökum í snjómokstri

Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, segir í frétt Morgunblaðsins að fyrirkomulag Reykjavíkurborgar hvað varðar útboð snjómoksturs sé ekki mjög gagnsætt. „Við höfum haft samband við borgina og furðum okkur á orðræðunni í Reykjavík í tengslum við skort á verktökum og vinnuafli í snjómokstri.“

Útboð Reykjavíkurborgar seint á ferðinni

Björg segir í fréttinni að SI séu reiðubúin að ræða við borgina til þess að finna lausnir ef áhuginn er til staðar. Hún segir að tilboð hafi verið opnuð 19. desember í útboði borgarinnar á snjómokstri á stofnanalóðum, og boðinn hefur verið út snjómokstur á göngustígum en óvíst sé hvernig fyrirkomulagið sé varðandi húsagötur. Þegar blaðamaður spyr hvort ekki hafi verið opnað fyrir útboðið of seint segir Björg það vissulega vera frekar seint. „Miðað við það að það er verið að bjóða út mokstur á stofnanalóðum. Þegar komið er svona langt inn í desembermánuð, þá finnst mér það vera frekar seint. Maður sér að útboðin á vetrarþjónustu eru oft að fara fram fyrr á árinu, kannski á sumarmánuðum eða eitthvað slíkt.“ 

Framkvæmd snjómoksturs gengið vel í Kópavogi

Björg nefnir í frétt Morgunblaðsins að annað fyrirkomulag sé í Kópavogsbæ en þar sé rammasamningur. „Þar hefur til að mynda framkvæmdin verið góð og gengið vel.“ Þegar hún er spurð af hverju fyrirkomulagið sé ekki eins á milli sveitarfélaga segir Björg að sveitarfélögin hafi forræði á málinu. Hún segist ekki vita af hverju Reykjavíkurborg fari ekki þá leið að vera með rammasamningsfyrirkomulag. Með því séu ákveðnir forgangsbirgjar, þ.e.a.s. listi yfir fyrirtæki, og hringt er í eins marga og þarfíhvert sinn. „Það virðist vera samið við færri aðila í Reykjavík.“ 

Engin ástæða til að auka innvistun hjá Reykjavíkurborg

Þá kemur fram í frétt Morgunblaðsins að Björg segi að orðræða Reykjavíkurborgar um að það sé skortur á verktökum og vinnuafli sé furðuleg. „Við sjáum að það hefur verið góð reynsla hjá nágrannasveitarfélögum af snjómokstri, bæði þar sem starfsumhverfi verktakanna og þjónustustig íbúanna er gott. Það er að okkar mati engin ástæða fyrir Reykjavíkurborg að auka innvistun með því að ráða starfsfólk og kaupa tæki til að sinna snjómokstri. Fyrirtækin, sem eru sérhæfð í þessu, eru fullfær um að sinna þessu. Það ætti frekar að vera áherslumál að rýna og eftir atvikum endurskoða núgildandi samninga og að taka ætti tillit til þess sem gengur vel.“

Morgunblaðið / mbl.is, 31. desember 2022.

Morgunbladid-31-12-2022