Fréttasafn



27. sep. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök upplýsingatæknifyrirtækja Starfsumhverfi

Fyrirtæki missa starfsfólk til borgarinnar

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir í Morgunblaðinu að félagsmönnum hjá Samtökum iðnaðarins hafi mörgum hverjum brugðið við fréttir af upplýsingatækniverkefni Reykjavíkurborgar þar sem ekkert samráð hafi verið haft við upplýsingatækniiðnaðinn um þetta risastóra verkefni. „Við vitum af fyrirtækjum sem hafa misst starfsfólk til borgarinnar og fyrirtækjum sem hafa reynt að nálgast borgina með stafrænar lausnir en mætt lokuðum dyrum.“ 

Í Morgunblaðinu kemur fram að áform Reykjavíkurborgar sé að byggja upp stafræna þjónustu með eigin starfsfólki þar sem verja á um 10,3 milljörðum króna á árunum 2021, 2022 og 2023 og ríflega 60 sérfræðingar verði ráðnir hjá borginni í ár. Í fréttinni kemur fram að sú stefna sé umdeild og kallað hafi verið eftir útreikningum sem staðfesti réttmæti stefnunnar. 

Sigríður segir að um sé að ræða eitt stærsta upplýsingatækniverkefni sem ráðist hafi verið í hér á landi. „Stærð og áhrif ríkis og sveitarfélaga hefur áhrif á allan markaðinn og þess vegna skiptir útfærsla svona stórra verkefna miklu máli.“ 

Horfa ætti á hvernig hagkvæmast er að leysa verkefnið

Sigríður segir í Morgunblaðinu það vera mikla einföldun að stilla málinu upp líkt og Reykjavíkurborg geri. „Það er mikil einföldun að horfa á þetta út frá kostnaði/tímakaupi á hvern starfsmann í útvistun í samanburði við innvistun. Nær væri að horfa á það hvernig hagkvæmast er að leysa verkefnið í heild sinni. Með sömu rökum gætu sveitarfélög rökstutt að ráðast í innhýsingu á fjölmörgum öðrum sviðum. Fjöldi vinnustunda yfir líftíma hvers verkefnis, heildarkostnaður og endaafurðin og árangur hlýtur að vera lykilatriðið í þessu sambandi.“

Keppt um einstök verkefni í gegnum útboð

Sigríður segir jafnframt að fyrirtæki sem sérhæfa sig í þjónustu á sviði upplýsingatækni í víðum skilningi, þróun hugbúnaðarlausna og stafrænna lausna séu að sjálfsögðu betur til þess fallin að leysa slík verkefni af skilvirkni en sveitarfélag sem hefur ekki reynslu af slíku. „Nærtækast er að líta til þess hvernig aðferðafræðin er hjá ríkinu í sömu stafrænu vegferð. Þar fer öll eiginleg þróun fram hjá atvinnulífinu sem keppir um einstök verkefni í gegnum útboð.“

Stafrænt Ísland unnið af einkaaðilum

Í Morgunblaðinu er einnig rætt við Andra Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóra hjá Stafrænu Íslandi, sem segir að verkefnið hafi alfarið verið unnið af einkaaðilum. „Við erum með verkefnastjóra innanhúss. Þannig að öll forritun og hönnun, og allt slíkt, er keypt í gegnum útboð.“ Í Morgunblaðinu kemur fram að verkefninu Stafrænt Íslandi hafi verið ýtt úr vör árið 2018 en ríkið hyggist verja milljörðum til uppbyggingar stafrænna innviða og ætla megi að tugir sérfræðinga hafi komið að þessari vinnu hjá einkafyrirtækjum. 

Morgunblaðið, 25. september 2021.

Morgunbladid-25-09-2021