Fréttasafn



4. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Fyrirtæki, stjórnvöld og fjármálakerfi styðji við nýsköpun

Fram undan er tímabil lítils vaxtar verði ekkert að gert. Á næstu áratugum þarf að skapa tugþúsundir starfa og aukin verðmæti til að standa undir þeim lífsgæðum sem landsmenn vilja búa við. Auðlindir landsins munu áfram verða uppspretta verðmætasköpunar, eins og verið hefur um aldir, en vöxturinn þarf að koma með því að virkja hugmyndaauðgi landsmanna sem eru engin takmörk sett. Þess vegna er nýsköpun ekki ein af leiðunum fram á við heldur eina leiðin. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Viðskiptablaðinu sem ber yfirskriftina Leggjumst öll á eitt - áratugur nýsköpunar

Hann segir nýsköpun skapi störf, verðmæti, útflutningur aukist og nýjar lausnir líti dagsins ljós sem bæti líf okkar. Þrennt þurfi til að þessi sýn verði að veruleika; frumkvöðlar og fyrirtæki sem vinni að nýsköpun, stjórnvöld þurfi að bæta almenn skilyrði og fjármálakerfið þurfi að styðja við vöxtinn. Lífsgæði okkar grundvallist á sköpun verðmæta sem verði til í atvinnulífinu. Nýsköpun eigi sér stað í öllum greinum en að grunni til sé nýsköpun iðnaður sem sé hagnýttur í ólíkum greinum atvinnulífsins. Um leið og hlúa þurfi að því sem fyrir er og gæta að því að hefðbundinn iðnaður geti vaxið og dafnað, þurfi að skapa skilyrði fyrir vöxt nýrra greina.

Jafnframt kemur fram í grein Sigurðar að þróunin sé hröð og önnur ríki vinni stöðugt að umbótum. Þess vegna þurfum við sífellt að gera betur svo hugvitið fái hér blómstrað og úr verði öflug fyrirtæki. Hann segir stjórnvöld eiga mikið hrós skilið fyrir að hafa gjörbreytt umhverfi nýsköpunar til hins betra. Nýsköpunarstefna stjórnvalda sem kynnt var haustið 2019 hafi verið stórt skref og sú yfirlýsing að Ísland sé nýsköpunarland sé stærri en halda mætti í fyrstu.

Í grein sinni segir Sigurður að bankar og þolinmóðir fjárfestar gegni veigamiklu hlutverki við vöxt fyrirtækja. Bankar hafi stutt vel við vöxt fyrirtækja á borð við Marel og Össur á sínum tíma og eigi sinn þátt í því að þau og fleiri nýsköpunarfyrirtæki hafi náð langt, ekki síst með ytri vexti. Þá segir hann að á  næsta áratug sjái bankar og fjárfestar vonandi tækifæri í því að knýja vöxt fyrirtækja þannig að úr nýsköpun verði til nokkur öflug fyrirtæki hér á landi.

Í niðurlagi greinar sinnar hvetur Sigurður  til þess að þriðji áratugur þessarar aldar verði áratugur nýsköpunar, áratugur þar sem grunnur sé lagður að nýrri sókn velmegunar og framfara. „Með því að taka höndum saman, frumkvöðlar, fyrirtækin, stjórnvöld og fjármálakerfið, verður þessi sýn að veruleika. Það gerist ekki í risastökki heldur í mörgum litlum skrefum. Þannig verða til þúsundir nýrra starfa, útflutningur eykst og meiri verðmæti verða til.“

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni. Á vef Viðskiptablaðsins er einnig hægt að ná í greinina.

Vidskiptabladid-30-07-2020