Fréttasafn



22. nóv. 2017 Almennar fréttir Menntun

Fyrsta verk nýs þings að leiðrétta mistök við lagasetningu

Dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, segir í Morgunblaðinu í dag að í ráðuneytinu sé tilbúið frumvarp sem leiðréttir mistökin sem voru gerð við lagasetninguna 2016 sem tók gildi 1. janúar 2017 sem er þess valdandi að ungur iðnnemi fær ekki dvalarleyfi hér á landi og hefur verið vísað úr landi. „Ég á ekki von á öðru en þessi lagabreyting renni í gegnum þingið um leið og það kemur saman, hvort svo sem það verður ég eða einhver annar sem leggur það fram. Frumvarpið verður alla vega tilbúið í ráðuneytinu þegar þing kemur saman. Þetta er bara sjálfsagt réttlætismál.“ En hins vegar segir hún í fréttinni að engin undanþágu ákvæði séu fyrir hendi sem hægt sé að beita til að iðnneminn sem vísa á úr landi geti dvalið hér þar til lögum hefur verið breytt.

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Sigurður Hannesson, sagði í grein sinni sem birtist í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag að það ætti að vera eitt af fyrstu verkum nýs þings að efla iðnnám og leiðrétta þau mistök sem gerð voru samhliða breytingum á útlendingalöggjöfinni á síðasta ári svo iðnnám standi jafnfætis háskólanámi. Þá var Sigurður í viðtali á Bylgjunni í gær um sama mál þar sem hann lagði áherslu á að viðhorfsbreyting gagnvart iðnnámi þurfi að eiga sér stað víða í samfélaginu og ráðamenn ættu auðvitað að fara fremstir í flokki og hampa iðnmenntun. „Ég vona það svo sannarlega að á þeim maraþonfundum sem nú eiga sér stað þessa dagana í ráðherrabústaðnum að þá sé þetta meðal þess sem þar er rætt,“ sagði Sigurður meðal annars í viðtalinu. Þar segist hann jafnframt halda að allir séu sammála að það séu mistök með þessi tilteknu lög en þetta sé engu að síður birtingamynd þess hvernig litið er á iðnnám meðal ráðamanna þar sem ekki einn þingmaður hafi greitt atkvæði gegn þessari breytingu.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar sem birtist í Fréttablaðinu.

Hér er hægt að lesa nánar um viðtalið við Sigurð á Bylgjunni.