Fréttasafn



21. maí 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Greinargerð SI lögð fram á fundi Þjóðhagsráðs

Á fundi Þjóðhagsráðs fyrir skömmu var lögð fram af hálfu Samtaka atvinnulífsins greinargerð Samtaka iðnaðarins með 36 tillögum að nauðsynlegum aðgerðum til að tryggja stöðuga húsnæðisuppbyggingu. Tillögurnar miða allar að því að ná fram stöðugleika á húsnæðismarkaði.

Samtök iðnaðarins telja að stöðugleiki á húsnæðismarkaði til lengri tíma náist einungis með því að ráðast að rót vandans sem liggur í umgjörð húsnæðisuppbyggingar. Tillögunum er skipt upp í aðgerðir sem annars vegar ríkið þarf að grípa til og hins vegar sveitarfélög þurfa að grípa til. Auk þess eru lagðar fram tillögur að aðgerðum sem snúa að starfsumhverfi fyrirtækja í bygginga- og mannvirkjagerð.

Það er mat Samtaka iðnaðarins að skortur á framboði á húsnæði hafi skaðleg áhrif bæði á almenning og atvinnulíf og því sé ávinningurinn af þeim umbótum sem lagðar eru til mikill. Samtökin telja að umgjörð byggingarmarkaðarins sé beinlínis áhættuþáttur í hagstjórn á Íslandi og því þurfi að breyta.

Hér er hægt að nálgast greinargerð SI.