Fréttasafn



1. júl. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök fyrirtækja í líf og heilbrigðistækni

Guðmundur Fertram endurkjörinn formaður SLH

 Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis, var endurkjörinn formaður Samtaka fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni (SLH) síðastliðinn þriðjudag á aðalfundi samtakanna. Fundurinn var haldinn í Húsi atvinnulífsins og voru málefni líf- og heilbrigðistækniiðnaðar rædd frá ýmsum hliðum. Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði hjá Samtökum iðnaðarins, og tengiliður SLH hjá samtökunum, var fundarstjóri.

Aðrir í stjórn samtakanna starfsárið 2022-2023 verða Hulda Hallgrímsdóttir, gæðastjóri Össurar, Finnur Einarsson, rekstrarstjóri EpiEndo Pharmaceuticals, Marta Blöndal, yfirlögfræðingur ORF Líftækni og Benedikt Stefánsson, forstöðumaður fjárfesta- og almannatengsla hjá Alvotech. Úr stjórn ganga Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech, Reynir Scheving, sérfræðingur um rannsóknir- og þróun hjá Zymetech og Björn Örvar, meðstofnandi og framkvæmdastjóri rannsókna- og nýsköpunar hjá ORF líftækni. Fráfarandi stjórn var þakkað innilega fyrir góð störf.

Guðmundur Fertram, formaður samtakanna, fór yfir skýrslu stjórnar og stefnumál samtakanna ásamt viðskiptastjóra og stjórn. Stjórn SLH lagði á starfsárinu áherslu á mannauðsmál, nýsköpun, regluverk og kortlagningu á iðnaðinum. Á aðalfundinum ræddu félagsmenn mikilvægi þess að efla stuðning við fyrirtæki í líf- og heilbrigðistækni á fyrstu stigum, bæði hvað varðar aðstöðu, tækjabúnað og regluverk og möguleikann á að efla samstarf milli ólíkra aðila sem bjóða fram aðstoð sína.

Heilbrigðis- og líftækniiðnaður hefur verið ört vaxandi á Íslandi síðastliðin ár en gjaldeyristekjur lyfja-, líftækni- og heilbrigðistækniiðnaðar námu 72 milljörðum árið 2019 samkvæmt greiningu á vegum Samtaka iðnaðarins miðað við 44,5 milljarða árið 2018. 

Hér er hægt að nálgast ársskýrslu SLH 2019-2022.

Fundur-juni-2022_1_1656600610604

Fundur-juni-2022_2_1656600626850