Fréttasafn



22. sep. 2016 Iðnaður og hugverk

Gullsmiðir fræðast um skráningu á vörumerkjum og hönnun

Félag íslenskra gullsmiða stóð fyrir fundi um skráningu á vörumerkjum og hönnun í Húsi atvinnulífsins fimmtudaginn 22. september. Góð mæting var á fundinn og sköpuðust líflegar og gagnlegar umræður. Erindi fluttu Árni Halldórsson, sérfræðingur hjá Einkaleyfastofu, og Hanna L. Karlsdóttir, lögfræðingur hjá Einkaleyfastofu. Fundinum stýrði Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur SI.

Í erindi Árna var farið yfir hvað vörumerki væri og til hvers ætti að skrá vörumerki hjá Einkaleyfastofu. Helstu kostir skráningar er vernd áður en notkun hefst á merki. Auk þess er hægt að fá úr því skorið áður en farið er út í kostnaðarsamt markaðsstarf hvort hægt er að fá einkarétt á merkinu. Þá er auðvelt að sanna rétt til vörumerkis ef um ágreinin verður að ræða. Skráningargjald er 28 þúsund krónur og gildir í 10 ár sem hægt er síðan að framlengja um 10 ár í senn. Árni benti einnig á að vörumerki er eign sem hægt er að framselja.

Hanna fór yfir hvað skráning á hönnun er en þar er eingöngu átt við vernd á útliti vöru sem geta verið húsgögn, fatnaður, umbúðir, vélbúnaður, verkfæri, matvæli, skartgripir osfrv. Hún sagði myndir skipta öllu máli en þær þurfa að sýna greinilega þá hönnun sem óskað er eftir vernd á. Með hönnunarrétti er átt við einkarétt til að nota hönnun og réttur til að banna öðrum að hagnýta sér hönnunina. Hanna fór einnig yfir til hvaða ráða hægt er að grípa ef brotið er gegn hönnunarrétti.

Á vefsíðu Einkaleyfastofu er hægt að fá frekari upplýsingar.