Fréttasafn



5. feb. 2018 Almennar fréttir Menntun

Heimsókn í MK

Fulltrúar Samtaka iðnaðarins heimsóttu Menntaskólann í Kópavogi, MK, í síðustu viku. Margrét Friðriksdóttir, skólameistari, og Baldur Sæmundsson, áfangastjóri verknáms, tóku vel á móti Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra SI, og Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur, sviðsstjóra rekstrar SI, og Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur, verkefnastjóra í menntamálum. 

MK býður bæði upp á bóklegt og verklegt nám. Þar fer fram kennsla til stúdentsprófs á bóknámsbrautum, kennsla á iðn- og verknámsbrautum, einkum í matvælagreinum og kennsla ferðamálagreina, allt með áfanga- og fjölbrautarsniði. Um 1.000 nemendur stunda nám í MK og því mikið um að vera, sér í lagi í mötuneyti skólans, þar sem nemendur matvælagreinanna nota gjarnan tækifærið og æfa kunnáttu sína. 

Gestirnir frá SI fengu leiðsögn um húsnæði skólans og þá sérstaklega matvælagreinanna þar sem boðið er upp á iðnnám í bakaraiðn, framreiðslu, kjötiðn og matreiðslu, auk meistaranáms í greinunum. Þá voru þau svo heppin að fá að njóta tilrauna annars árs nema sem buðu þeim upp á dýrindis hádegisverð sem myndi sóma sér á hvaða veitingastað sem er.

MK3-30-01-2018Talið frá vinstri: Jóhanna Vigdís, Baldur, Margrét, Ingibjörg Ösp og Sigurður.

MK4-30-01-2018