Fréttasafn



10. maí 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Híbýlaauður til umræðu í beinu streymi frá Norræna húsinu

Híbýlaauður er yfirskrift fundar sem verður streymt frá Norræna húsinu þriðjudaginn 11. maí kl. 13.00-15.00. Í tilkynningu segir að þar fari fram samtal um húsnæðismál á mannamáli, spunnið út frá arkitektónískum og hagrænum rannsóknum sem kynntar verða í samhengi við húsnæðisuppbyggingu á Íslandi. Áherslunni er beint að íbúanum og gæðum í hönnun og skipulagi, því að skapa híbýlaauð fyrir þá sem búa ekki síður en þá sem byggja. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, tekur þátt í pallborðsumræðum. Viðburðurinn er á dagskrá Hönnunarmars og í samstarfi við Norræna húsið, hér er linkur á streymi

Dagskrá

13.00 LÚXUS FYRIR ALLA? ANNA MARÍA BOGADÓTTIR, arkitekt og menningarfræðingur,
innleiðir samtalið um listina að búa og listina að byggja: Hvar er pláss til að anda?

13.15 HVER GRÆÐIR Á ÞESSU? ÁSGEIR BRYNJAR TORFASON, doktor í fjármálum, rýnir í hagræna og hagsögulega þætti íbúðauppbyggingar í samtali við Unu Jónsdóttur hagfræðing hjá Landsbankanum: Er dýrt að byggja ódýrt?

14.40 GLÆTAN?! HREFNA BJÖRG ÞORSTEINSDÓTTIR & HÓLMFRÍÐUR ÓSMANN JÓNSDÓTTIR, arkitektar,  kynna rannsóknir sínar á dagsbirtu í fjölbýlishúsum ásamt ÁSTU LOGADÓTTUR, doktor í rafmagnsverkfræði: Er gluggi ekki bara gluggi?

14.05 HVAR Á PÍANÓIÐ AÐ VERA? HILDUR GUNNARSDÓTTIR, arkitekt, rýnir í rýmismótun, stærð og gæði almennra íbúða í samtali við Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóra Brynju hússjóðs Öryrkjabandalags Íslands, og Pál Gunnlaugsson, arkitekt og meðeiganda ASK arkitekta: Hvenær runnu leiksvæðið og bílastæðið saman í eitt?

14.30 ER EINHVER FRAMTÍÐ Í ÞESSU? Fulltrúar úr framlínu húsnæðisuppbyggingar, þeirra sem búa og byggja, leggja orð í belg: Á að splæsa í gæði fyrir alla?

Viðburðurinn er hluti verkefnisins Húsnæðiskostur og híbýlaauður á vegum ÚRBANISTAN og arkitektanna Önnu Maríu Bogadóttur, Hildar Gunnarsdóttur, Hólmfríðar Ósmann Jónsdóttur og Hrefnu Bjargar Þorsteinsdóttir, Ásgeirs Brynjars Torfasonar, doktors í fjármálum, og Snæfríðar Þorsteins, hönnuðar. Í tilkynningu segir að byggt sé á þverfaglegum rannsóknum, þar sem áherslan sé á gæði húsnæðis og með vísan í ný og nýleg dæmi sé skyggnst bakvið þróun í húsnæðismálum á Íslandi í alþjóðlegu samhengi og sögulegri vídd. Markmiðið sé að brýna þekkingu fag- og fræðafólks á sviði hönnunar og arkitektúrs í samtali við aðrar faggreinar og framkvæmdaaðila, til áhrifa á sviði húsnæðismála.

Hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar um viðburðinn.