Fréttasafn



3. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Hið opinbera getur aldrei leitt nýsköpunarstarf

Hugmyndin að nýsköpunarfyrirtækinu Algalíf, sem ræktar örþörunga og vinnur úr þeim fæðubótarefni, fæddist í Noregi fyrir tæpum 10 árum að sögn ORRA BJÖRNSSONAR, forstjóra. Markmiði í upphafi var að finna þörung sem hægt væri að rækta á hagkvæman hátt á Íslandi. „Á þeim tíma var Ísland ennþá tiltölulega ódýrt land í samanburði við Noreg,“ segir Orri. Fljótlega var ákveðið að stefna að framleiðslu á andoxunarefninu astaxanthin. Um er að ræða gríðarlega öflugt andoxunarefni sem dregur úr bólgum, veitir vörn gegn geislum sólar og stuðlar að almennu heilbrigði.

Við róum að því öllum árum að auka söluna sem mest í Asíu þar sem efnið er þekktara og meiri hefð er fyrir neyslu og inntöku á náttúrulegum vörum.

Astaxanthin er frekar dýr vara og þörungurinn sem efnið er fengið úr, Haematococcus pluvialis, er nokkuð erfiður í ræktun. Í því felst ákveðin samkeppnisvernd fyrir framleiðsluna. Þetta var mikilvæg og rétt ákvörðun sem við tókum í upphafi og er grundvöllurinn fyrir því að Algalíf hefur náð að vaxa og dafna og er orðið að alvöru fyrirtæki,“ segir Orri, en nú starfa hjá félaginu 33 einstaklingar í fjölbreyttum störfum. „Gróflega má segja að þriðjungur starfsmanna sé í framleiðslu, þriðjungur í sérhæfðum vísindastörfum og svo þriðjungur í skrifstofu - og tæknistörfum,“ útskýrir hann. 

Stefna á að auka framleiðslu um 40% 

Fæðubótarefnið sem Orri og félagar rækta úr þörungnum heitir sem fyrr segir, astaxanthin. Algalíf framleiðir um tíu vörur úr efninu. „Okkar vörulína er frekar einföld enn sem komið er en við vinnum hörðum höndum að því að auka breiddina, bæði í hráefnum og lokaafurðum, sem gefa betri framlegð og eru því eftirsóknarverðari – ef markaðssetningin gengur vel, það er að segja.“ 

Langsamlega stærsti hluti reksturs Algalífs er sala á hráefnum. „Við störfum á þremur mörkuðum; Evrópu, Ameríku og Asíu. Við róum að því öllum árum að auka söluna sem mest í Asíu þar sem efnið er þekktara og meiri hefð er fyrir neyslu og inntöku á náttúrulegum vörum,“ útskýrir Orri, en segir um leið að Evrópumarkaðinn hafi komið talsvert á óvart. „Markaðurinn þar hefur verið stærri en við áttum von á.“ 

Á þessu ári hefur fyrirtækið að markmiði að auka framleiðsluna um um það bil 40%. „Þá erum við komin í fulla framleiðslugetu í núverandi húsnæði. Ef markaðurinn heldur áfram að stækka munum við að sjálfsögðu skoða frekari vöxt og höfum tryggt okkur lóðir við hlið núverandi verksmiðju.“ 

OrriAlgalif_806A5520

Styrkjakerfið ekki endilega heppilegast 

Orri segir umhverfið fyrir frumkvöðla hér á landi að sumu leyti gott en skortur á fjármagni sé það sem margir reka sig á. Í tilfelli Algalífs komu mjög öflugir fjárfestar inn snemma í ferlinu sem varð fyrirtækinu til lífs. „Fjárfestarnir komu inn snemma og höfðu getu til að styðja verkefnið en ekki síður trú á að það gæti gengið upp. Fæst ný fyrirtæki eru svo heppin. Umhverfið hér er að sumu leyti gott en það háir held ég flestum fyrirtækjum að fjármagn er takmarkað. Styrkjakerfið er ekki endilega besta leiðin til að styðja ný fyrirtæki og úthlutanir geta verið tilviljanakenndar. En það sem er jákvætt er að það er mikil gróska og hugmyndaauðgi,“ segir Orri. Frumkvöðlar hér séu djarfir og fylgnir sér sem sé nauðsynlegt til að nýjar hugmyndir hljóti brautargengi.

„Ísland er lítið land og við getum ekki verið best í öllu en með því að vera ófeimin við að leita til útlanda og vinna með erlendum aðilum er hægt að vinna vel og hratt í okkar umhverfi. Það eru í dag margar góðar hugmyndir á teikniborðinu og sumar sem byrjuðu um svipað leyti og Algalíf hafa náð ótrúlega langt og eru jafnvel orðnar að stöndugum fyrirtækjum sem starfa á alþjóðamarkaði. Meniga, Lauf Forks og Saga Natura koma upp í hugann,“ skýrir hann frá. 

„Svo finnst mér árangur ORF líftækni á síðustu árum vera ævintýralegur, þó það sé mun eldra fyrirtæki. Þau virðast hafa vitað nákvæmlega hvað þau ætluðu sér, og eru nú að uppskera eins og þau sáðu.“ 

Hið opinbera má ekki þvælast fyrir 

Orri segir skynsamlegt að stjórnvöld myndu auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að leggja fé í áhættusama nýsköpun, til dæmis með einföldu kerfi skattaafsláttar og fleiru þess háttar. „Bæði vegna fjárfestinga og reksturs. Hið opinbera getur aldrei leitt nýsköpunarstarf, en það getur stutt við og passað að þvælast ekki fyrir frumherjum. Einfaldar reglur og lægri skattar ásamt skattaafsláttum eru leiðir sem ég held að hjálpi alltaf. Hagsmunasamtök eins og SI eru einnig mikilvægir bakhjarlar og bjóða bæði upp á góða þjónustu og aðstoð sem gott er að nýta,“ segir Orri.

Ef markaðurinn heldur áfram að stækka munum við að sjálfsögðu skoða frekari vöxt og höfum tryggt okkur lóðir við hlið núverandi verksmiðju.

 

Frumkvöðlar raði í kringum sig góðu fólki

Hvað ráðleggur þú frumkvöðlum sem eru að stíga sín fyrstu skref? „Fyrir utan það að vera gagnrýnin á eigin hugmyndir og tilbúin að horfast í augu við mistök um leið og þau eru orðin ljós þá held ég að besta ráðið sé að velja sér góða samstarfsmenn og fyrirtæki. Besti árangurinn næst með góðri liðsheild þar sem allir róa í sömu átt,“ segir Orri.

Hvað er Astaxanthin? 

Fæðubótarefnið sem Algalíf ræktar heitir astaxanthin og er 550 sinnum öflugra andoxunarefni en E-vítamín og 6 þúsund sinnum áhrifaríkara en C-vítamín. Efnið virkar vel á mörg kerfi líkamans, veitir vörn gegn geislum sólar og stuðlar að heilbrigði augna, heila og hjarta. Astaxanthin hefur mikið verið rannskað og sýna klínískar rannsóknir svo enginn vafi er á að það getur verið mikil heilsubót fólgin í inntöku á efninu. Astaxanthin er gott fyrir húðina sem er stærsta líffæri líkamans en það verndar hana, bætir rakastig hennar, mýkt og dregur úr fínum hrukkum, blettum og freknum. Astaxanthin dregur einnig úr þeim skaða sem útfjólubláu geislar sólarinnar geta valdið húðinni (sólbruni). Astaxanthin dregur almennt úr bólgum og nýtist vel gegn nánast hvaða bólguástandi sem er, hvort sem það er í liðum eða annarsstaðar. Að auki getur það stuðlað að auknum árangri hjá íþróttamönnum.

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_