Fréttasafn



27. apr. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Hömlur á eignarrétti fasteigna draga úr samkeppnishæfni

„Lögin ganga of langt í að girða fyrir eignarhald erlendra aðila á eignum á Íslandi,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunblaðinu um drög að lagafrumvarpi um breytingu er varðar eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum á Íslandi. Í fréttinni kemur fram að í fyrra hafi verið gerð lagabreyting þar sem takmarkað var að útlendingar gætu keypt jarðir. Samtök iðnaðarins hafi bent á að þá hafi verið gengið alltof langt og að drög að nýju frumvarpi dugi skammt til að leiðrétta það. Erlendir aðilar verði enn að sækja um leyfi hjá ráðherra til að kaupa fasteign. „Við erum alltaf að tala um að það þurfi að efla fjórðu stoðina sem er hugverkaiðnaður og til þess að gera það þarf erlenda sérfræðinga til landsins,“ segir Sigurður í frétt Morgunblaðsins og bendir á að hugverkaiðnaðurinn þurfi erlenda fjárfestingu og þetta sé hindrun. „Það verður bara ákjósanlegra fyrir fjárfesta og erlenda sérfræðinga að horfa til annarra landa,“ segir Sigurður og bætir við: „Það er bara kristaltært, þetta dregur úr samkeppnishæfni Íslands ef það verður ekki brugðist við þessu.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 26. apríl 2021.

Morgunbladid-26-04-2021