Fréttasafn



8. júl. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Hugarfar gagnvart nýsköpun er að breytast

Kristján Kristjánsson stjórnandi þáttarins Sprengisandur á Bylgjunni ræddi um nýtt tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun og nýsköpunarumhverfið hér á landi við Árna Sigurjónsson, formann SI, og Ágústu Guðmundsdóttur hjá Zymetech, í þætti sínum síðastliðinn sunnudag. Kristján vitnar til þess sem kemur meðal annars fram í tímaritinu að skapa þurfi 60 þúsund ný störf næstu 30 árin eða fram til ársins 2050 og það sé ærið verkefni. 

Í upphafi viðtalsins segir Árni frá tilurð tímarits samtakanna en að ákveðið hafi verið seint á síðasta ári að tileinka árið 2020 nýsköpun og hafi það verið sett af stað í byrjun árs. „Þá kom upp þessi hugmynd að safna saman brotum úr þessum fjölbreyttu geirum sem við eigum og hafa verið að vinna í nýsköpun. Af því að orðið nýsköpun hefur verið mikið notað, mönnum er tamt að tileinka sér það og menn hugsa um það á allskonar hátt og á auðvitað við um marga mismunandi hluti. En þarna reyndum við að gera þetta áþreifanlegt svo hægt væri að fest hönd á hvað við höfum verið að gera í nýsköpunarmálum á Íslandi. Það hefði verið hægt að gefa út mörg svona tímarit eða langa útgáfu en þarna er fjölbreytnin í fyrirrúmi, viðmælendur úr öllum geirum, af báðum kynjum og öllum aldri og fyrirtækin eru stór og lítil. Okkur finnst mikilvægt að koma þessu út í umræðuna og leyfa fólki að kynna sér hvað við erum að gera ótrúlega magnað hluti í nýsköpun en á sama tíma eru áskoranir framundan. Við þurfum að skapa mikið af störfum hér á næstu árum og við höfum sagt það að nýsköpun sé í raun eina leiðin til að ná því markmiði. En þó við segjum að þetta sé eina leiðin þá erum við ekki að tala um einhverja eina leið.“

Þurfum að horfa til framtíðar

Árni segir að við séum með mikið af glæsilegum fyrirtækjum í landinu. „Við erum með grunnatvinnuvegina, við erum með sprotana og allt þar á milli. Allir þurfa að keppast við að búa til ný verðmæti. Við erum með erfiðar aðstæður í efnahagslífinu sem okkur óraði ekki fyrir þegar við settum þetta verkefni af stað. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa og orðið hraðari en við þorðum að vona. Við lögðum upp með nýsköpunarstefnu fyrir tveimur árum og mörgum af þeim markmiðum hefur þegar verið náð.“ Hann segir að endurskoða þurfi markmiðin núna. „Af því ástandið er svona og samhljómurinn í þjóðfélaginu er þannig bæði á þingi og annars staðar í þjóðfélaginu að þá hafa verið lögfestar hér aðgerðir sem munu valda miklum breytingum og hefði í raun átt að verið komið fyrir mörgum árum segjum við. En er á meðan er og hér stöndum við og þurfum að horfa til framtíðar.“

Nýir atvinnuvegir ásamt hefðbundnum

Kristján segir að Ágústa komi úr háskólaumhverfinu og að fyrirtæki hennar byggi á líftækni. Hún hafi verið að lengi og marga fjöruna sopið í þessum efnum. Ágústa segir að þetta sé ekki bara eitt ár nýsköpunar heldur næstu 10 árin. „Næstu 10 árin verður lögð áhersla á að ná árangri í nýsköpun. Ég held til dæmis að þessi nýsköpunarstefna hennar Þórdísar Kolbrúnar, nýsköpunarráðherra, sé mjög gott leiðarljós til framtíðar. Af því þar er tekið á mjög mörgum málum sem brenna á frumkvöðlum. Þarna erum við að tala um fjármagn, endurgreiðslu þróunar- og rannsóknarkostnaðar, við erum að tala um Kríuna sem fjárfestir í svokölluðum vísisjóðum þar sem frumkvöðlar geta fengið fjármagn með því að gefa eftir hluta af hlutafé. Ég skynja það mjög sterkt að hugarfar gagnvart nýsköpun er að breytast. Fólk trúir því að þetta verði nýju atvinnuvegirnir ásamt auðvitað þessum hefðbundnu.“

Auðveldara að fá fjármagn til rannsókna 

Þegar Ágústa er spurð hvað hafi helst breyst í nýsköpunarumhverfinu segir hún að það sé miklu auðveldara að fá fjármagn til rannsókna núna, það sé meiri hvatning og meiri skilningur. „Ég kem úr háskólaumhverfinu og fyrir 10 árum síðan þá einsetti Háskóli Íslands sér að verða meðal þeirra tíu bestu og það þótti nú mörgum það ansi fjarri að það tækist en nú hefur mjög góður árangur náðst. Það eru vissar deildir sem eru miklu framar en aðrar en við höfum farið upp um mörg hundruð stig í þessu og ég held að við getum alveg gert það sama í nýsköpuninni. Við segjum bara að við ætlum að verða meðal 50 bestu eftir 10 ár. Það gerir það að verkum þegar svona stefna er sett að það fer miklu meiri fókus á þetta atriði og inni í þessum vísum sem eru teknir til greina til að komast á lista yfir 100 bestu háskólana þá eru það rannsóknir, stofnun nýrra fyrirtækja og einkaleyfi og það hefur allt gerst. Ég held að jarðvegurinn núna sé fyrir að við getum náð árangri á mörgum sviðum. Ég held að hann hafi verið skapaður á síðustu 10 árum og við förum hraðar að markinu.“ 

Hún segir að það sé fjölbreytt flóra af nýsköpunarfyrirtækjum, bæði sem séu núna í einhverju ferli og sem síðan koma inn. „Þannig að ég held að við getum alveg sett okkur þetta mark að verða innan 10 ár meðal 30 eða 50 bestu eða einhvers staðar þar, þá held ég að það verði miklu meiri fókus.“

Þarf að búa til heildstæða atvinnustefnu

Þegar umræðan berst að því hvaða atvinnugreinar þetta væru sem væru að koma nýjar inn vísar Árni í orð nýsköpunarráðherra sem hafi sagt á opinberum vettvangi að ríkið taki ekki að sér að velja sigurvegara. „Ég held að það sé hárrétt. Það sem ríkið á að gera og er að gera er að búa til þetta umhverfi sem nýsköpun getur vaxið og dafnað í. Markaðurinn sér að mörgu leiti um hitt, ef við erum með nógu öflugt stuðningskerfi þá munu sprotarnir vaxa. Við höfum verið að tala um það að nýsköpunarstefna stjórnvalda skiptir miklu máli. Þá höfum við lagt mikla áherslu á að það verði búin til hér heildstæð atvinnustefna. Það er að segja að við sem þjóð ákveðum saman og stjórnvöld hvert við ætlum að stefna, hvar við ætlum að verða eftir 10 ár, eftir 30 ár.“ Hann segir að líta þurfi til þess hvar styrkleikar okkar liggja. „Við erum með okkar frumatvinnuvegi en hvar viljum við vaxa, hvar viljum við að störfin verði til. Þar koma inn í þetta menntamálin, starfsumhverfi og annað slíkt. Þetta hafa Norðmenn gert, Bretar eru að gera þetta núna í tengslum við Brexit. Þeir eru að leggja ákveðnar línur og atvinnulífið er með í ráðum, það hoppar á vagninn og sér að þarna ætlar Ísland að verða eftir ákveðinn ár, setja sér ákveðin markmið, ekki of stíf eða of þröng en þannig að allir viti í hvaða átt sé verið að stefna. Það sama gildir um nýsköpun, þá vitum við svona nokkurn veginn að okkar metnaður liggur í þessa átt, hvort sem það er líftækni, sjávarútvegur, landbúnaður eða matvælaframleiðsla.“ Árni segir að við sem þjóð og þjóðfélag þurfum að ákveða hvar Ísland ætlar að verða í framtíðinni og að það hafi verið kallað Ísland 2.0. 

Ágústa segist vera á móti því að peningarnir séu eyrnamerktir tilteknum greinum. „Það er allt í lagi að hafa einhver átaksverkefni tímabundin eins og hefur verið gert, t.d. hjá Tækniþróunarsjóði, en ég held að við eigum samt að hafa frelsi í þetta því við vitum aldrei hvar góðu fyrirtækin verða til. Ég held að við eigum að vera tiltölulega opin en að sjálfsögðu munum við vera með þessa hefðbundnu atvinnuvegi, sjávarútveg og landbúnað og hluti af því er garðyrkja “

Árni segir það ekki vera óeðlilegt að nýsköpun verði til í tengslum við nærumhverfið. „Þetta eru hlutir sem við þekkjum.“ 

Samstarf við erlenda aðila getur hraðað árangri

Kristján spyr Ágústu um samstarf og sameiningu Zymetech við sænskt fyrirtæki og segir hún það hafa verið gæfa því fyrirtækið hafi þannig fengið þekkingu sem það hafði ekki áður. „Það hraðar ferlinu að árangri. Við fengum þekkingu í markaðssetningu, skráningu og öllu þessu sem að okkur vantaði. Ég held að það þurfi að koma slík hugsun á fyrri stigum af því að maður fattar oft ekki hvað mann vantar fyrr en maður fær það sem maður þurfti á að halda. Þetta hefur reynst okkur mjög vel og fyrirtækið verður auðvitað allt af til hér á landi. Við erum að nota slóg sem að annars hefur verið hent og við viljum gjarnan að það standi okkur til boða áfram. Við erum með rannsóknir og þróun hérna og öll sú þekking sem við höfum yfir að ráða hún nýtist alveg út á markaðinn og jafnvel þegar vara er komin út á markaðinn þá koma fyrirspurnir og það erum bara við sem getum svarað því af því við erum með alla grunnþekkinguna. Þannig að rannsóknir og þróun og ensím-framleiðslan verður alltaf hér á landi.“

Hún segir að við séum góð í fyrri stigum nýsköpunar og telur að við eigum áfram að vera góð þar. „En að leita að tækifærum sem geta  eflt okkur og hraðað því að við náum árangri í samstarfi við erlenda aðila. Það er ekkert að því í raun því að þessi verkefni sem við erum að vinna að þau eru það stór. Við erum að stefna á alþjóðamarkað og oft þarf fleiri en einn aðila til að koma vöru á alþjóðamarkað þannig að ég held að það sé ekkert verra að leita út fyrir landsteinana. Við erum alltaf með mikilvægan hluta. Við megum ekki gleyma því að rannsóknar- og þróunarhlutinn er mjög mikilvægur á öllum stigum í nýsköpuninni.“

Eigendur hafi hag af því að hafa fyrirtækin á Íslandi

Árni segir að það þurfi að vera hagur eigenda fyrirtækisins að halda starfsemi hér á landi að einhverju leiti. „Við verðum að horfast í augu við það að ef það kemur ekki inn fjármagn erlendis frá eða erlent eignarhald þá er hætta á að fyrirtækið lognist út af. Hvort er nú skárra?“ Hann segir að búa þurfi þannig um hnúta að starfsumhverfi einkaleyfa og annað slíkt geti verið hér á Íslandi þannig að menn sjái sér hag í því að vera á Íslandi, halda störfum og búa til ný störf óháð eignarhaldi. „Það þarf að vera þannig. En öll þessi fyrirtæki þurfa fjármagn til þess að geta vaxið og dafnað. Það eru svo mörg stig í þessu ferli og margar hindranir. Það er ekki bara að ná sér í styrkina upphaflega eða koma hugmyndinni á legg. Heldur er það þegar menn fara í stjórnunar- og markaðsstarf, þá sérstaklega er sá póstur mjög dýr og getur reynst mörgum erfiður.“ Árni segir að kannski séu einhverjir með frábæra hugmynd en hún sé náttúrulega ekki frábær ef ekki er hægt að koma henni á framfæri.

Bankarnir hræddir við nýsköpunarfyrirtæki

Ágústa segir hér á landi sé jafnvel verið að þjálfa framtíðarstarfsmenn annarra fyrirtækja. „Þeir sem eru með okkur í þessari nýsköpun þeir kannski seinna meir stofna sín eigin fyrirtæki þannig að þetta er svo margþætt. Í raun er það margþættur hagur sem kemur út úr því og það er mjög gaman fyrir þá sem eru að vinna að sjá fyrirtækið stækka, vaxa og dafna. Í staðinn fyrir að maður sé alltaf í bara með ólina um hálsinn, það er rosalega erfitt.“ Hún segir að bankarnir séu mjög hræddir við nýsköpunarfyrirtæki. „Það hefur maður fundið fyrir og það er kannski eðlilegt. En það er mjög mikilvægt líka að hvetja bæði til stofnunar fyrirtækja og skráningar á markaði eins og hefur verið gert í Svíþjóð. Það var gert átak þar og það hefur skilað alveg gríðarlegum árangri. Vegna þess að ef þú ætlar að fá fjármagn þá þarftu eiginlega að vera skráður á markað.“ 

Árni tekur undir þetta og segir að þetta sé klárlega ein leið og leið sem við getum nýtt meira. Hann vitnar meðal annars til könnunar sem gerð hafi verið í byrjun árs þar sem komi fram að svarendur úr nýsköpunarfyrirtækjum töldu að fjármögnunarkerfið stæði nýsköpunarfyrirtækjum fyrir þrifum og það væri erfitt að fjármagna fyrirtækin og bankaþjónustan á Íslandi hentaði illa eða mjög illa fyrir nýsköpunarfyrirtæki. „Það er eitt þegar við tölum um áhættufælni og þessa hefðbundna nálgun með veð og eignarhald. Ég veit að það hafa verið gerðar tilraunir í bönkunum til að taka nýsköpunargeirann út fyrir sviga en menn dragast oft aftur inn í gamla góða rammann. Ég hef trú á að við sjáum ákveðnar breytingar á þessu en aðgangur að fjármagni þarf að batna og það þarf ákveðnar breytingar í þessa átt.“ 

Ágústa bætir við að hún viti að mörg nýsköpunarfyrirtæki sem eru lítil, 7-10 manns, séu skráð á sænska markaðinn og að það hafi verið sýnt fram á að það stórauki möguleikann á að ná árangri og fá fjármagn.

Þarf áfram að fjölga útskrifuðum doktorum héðan

Þegar Kristján spyr hvað þurfi að gera til að laða hingað til lands fólk með rétta þekkingu nefnir Ágústa að henni sýnist að það hafi ekki verið erfitt fyrir fyrirtæki í líftækni- og erfðavísindum eins og Íslenska erfðagreiningu, Alvotech og Alvogen að fá hingað til lands fólk með þekkingu. „Kannski þurfa fyrirtækin að vera komin á eitthvað stig þannig að þau geti greitt góð laun en við fáum fyrirspurnir erlendis frá allskonar fólki sem hefur áhuga á að koma til okkar í störf. Ég held að það sé ekki mikið vandamál að laða hingað fólk. Þetta fólk veitir líka þekkingu út í samfélagið og út í nýsköpunargeirann. Við erum alltaf að þjálfa upp fólk til að takast á við nýsköpun. Ég held að við höfum gert það undanfarinn áratug mjög vel. Við höfum útskrifað fjöldann allan af doktorsnemum sem skiptir líka máli af því þeir eru mjög góðir tengiliður við iðnaðinn. Þannig að það eru verkefni sem eru stór, 3-5 ára verkefni, sem fyrirtæki geta fengið þá aðila til að skoða í samstarfi við einhvern aðila innan háskólans. Það finnst mér vera mjög öflug leið.“ Hún segir að það þurfi að halda áfram að fjölga doktorum sem við útskrifum héðan.

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtal Kristjáns Kristjánssonar við Árna og Ágústu, 5. júní 2020.

 

Timarit-SI_Nyskopun_vefutgafa-3Í tímariti SI um nýsköpun skrifar Árni Sigurjónsson, formaður SI, ávarp.

Timarit-SI_Nyskopun_vefutgafa-38Í tímariti SI um nýsköpun er viðtal við Ágústu Guðmundsdóttur, doktor í örveru- og sameindalíffræði og annan af tveimur stofnendum líftæknifyrirtækisins Zymetech.