Fréttasafn



22. maí 2015 Iðnaður og hugverk

Humarpaté bar sigur úr býtum í Ecotrophelia nýsköpunarkeppni háskólanema

Nýsköpunarkeppnin Ecotrophelia Ísland fór fram 20. maí síðastliðinn. Keppnin felst í að þróa markaðshæf, vistvæn matvæli eða drykki og rétt til þátttöku hafa nemendahópar, 2-10 í hverjum hópi, úr öllum háskólum landsins. Að keppninni standa Háskóli Íslands, Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtök iðnaðarins.

Í þetta sinn kepptu fimm lið til úrslita, (1) lið skipað Hildi Ingu Sveinsdóttur, Ingu Rósu Ingvadóttur og Sóley Ósk Einarsdóttur frá Háskóla Íslands (HÍ) með Grafinn skötusel, (2) lið skipað Gunnari Ásgeirssyni, Ingu Ósk Jónsdóttur (HA), Margréti Evu Ásgeirsdóttur(HÍ), Sigfúsi Erni Sigurðssyni(HA), Snæfríði Arnardóttur(HA), Stefaníu Jónsdóttur(HA) og Þórhildi Sigurðardóttur(HA) með Humarpaté, (3) lið skipað Ástu Hermannsdóttir, Dagnýju Björk Aðalsteinsdóttur og Elva Björk Traustadóttur frá HÍ, með Kex fyrir börn, (4) lið skipað Ólafi  Tryggva Pálssyni, Snorra Karli Birgissyni, Stefáni Þór Eysteinssyni og Yuetuan Zhang frá HÍ, auk Jónbjörns Finnbogasonar sem sá um hönnun umbúða, með Umami flavour from Iceland og (5) lið skipað Lilju Maríu Stefánsdóttur, Maríu Halldórsdóttur, Melkorku Ægisdóttur, Svandísi Þóru Sæmundsdóttur og Sylvíu Kolbrá Hákonardóttur frá Háskólanum á Akureyri með Þarate.

Dómnefnd skipuðu Sigþrúður Guðnadóttir verkefnisstjóri hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur og starfsmaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Sigrún Elsa Smáradóttir, matvæla- og viðskiptafræðingur, starfsmaður Matís, Ragnheiður Héðinsdóttir, matvælafræðingur, starfsmaður Samtaka iðnaðarins, og Jónína Stefánsdóttir, matvælafræðingur og sérfræðingur í umbúðamerkingum matvæla.

Verðlaun voru afhent á ráðstefnu Matvælalandsins Íslands á Hótel Sögu 21. maí þar sem nemendurnir sýndu líka afurðir keppninnar. Varan Humarpaté varð hlutskörpust og hlutu höfundar þess verðlaunagrip, peningaverðlaun og ráðgjöf frá Matís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, auk þátttöku rétta í keppninni Ecotrophelia Europe seinna á árinu. Allir hóparnir fengu viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna og ávísun á ráðgjöf frá Nýsköpunarmiðstöð.