Fréttasafn



20. jún. 2017 Almennar fréttir

Hvatti til að sækjast ekki eftir störfum heldur tilgangi

Vignir Örn Guðmundsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda (IGI) og fyrrum starfsmaður Samtaka iðnaðarins, hélt ræðu við útskrift nemenda í Háskólanum í Reykjavík um síðustu helgi. Vignir er einn stofnanda sprotafyrirtækisins Radiant Games, en fyrirtækið varð til innan veggja Háskólans í Reykjavík. 

Í ræðu sinni sagði Vignir meðal annars frá stofnun fyrirtækisins sem hafði það að markmiði að búa til hágæða forritunarleiki fyrir börn. Fyrirtækið var stofnað vorið 2014 og fyrir ári síðan gaf fyrirtækið út leikinn Box Island eftir tveggja ára vinnu. Hann sagði stofnendurna hafa náð mörgum eftirsóknarverðum áföngum, meðal annars var leikurinn á forsíðu bæði App Store og Play Store í yfir 100 löndum og fékk umfjöllun á stærstu tæknimiðlum heims, eins og TechCrunch og Mashable. Þá funduðu stofnendurnir í Los Angeles með Disney og Universal um mögulegt samstarf og unnu Nordic Game Awards fyrir besta leikinn fyrir fjölskyldur, og sigruðu þar meðal annars Angry Birds en yfir hálf milljón notenda hefur sótt leikinn. Hálfu ári eftir útgáfu leiksins í desember síðastliðnum var tekin meðvituð ákvörðun um að hætta áframhaldandi þróun Box Island og loka skrifstofu fyrirtækisins. Vignir sagði það hafa verið mjög erfiða ákvörðun því mikil vinna hafi verið sett í þetta ferðalag og þeir hafi trúað á boðskap fyrirtækisins. Auk þess sem þeir sáum Box Island hafa jákvæð áhrif á börn um allan heim, sem tóku sín fyrstu skref í forritun í gegnum leikinn. En á endanum hafi þetta verið rétt ákvörðun.

Vignir vitnaði til orða listamannsins Kendrick Lamar sem var spurður að því hvaða hugmyndir lægju að baki síðustu plötu hans og svarið hafi verið „Þú getur ekki breytt heiminum, fyrr en þú breytir sjálfum þér.“ Vignir lagði síðan út frá þremur heilræðum sem hann kallaði „Útskriftarheilræðin þrjú“ og tengdi hvert þeirra við tákn. Heilræði Vignis eru eftirfarandi:  

#1: Hraði tækniþróunar er að aukast; Heimurinn sem við lifum í var útópískur draumur fyrir 30 árum. Ekki halda í eina sekúndu að það sé að hægjast á tækniþróun í heiminum. 40-50% starfa í dag verða sjálfvirknivædd af hugbúnaði, vélum og vélmennum á næstu 2-3 áratugum. Ekki hundsa þessar spár, né taka þeim sem of heilögum sannleik heldur. Einfaldlega meðtakið þær og setjið ykkur sjálf í samhengi við þróunina. Annað tengt tækniþróun. Vitið þið hverjar meðallífslíkur Íslendings voru árið 1900? 46 ár. Árið 2016: 82 ár. Meirihluti ykkar, útskriftarnema, mun ná yfir 100 ára aldri. Persónulega vil ég miða við 120 ára ævi í minni ákvarðanatöku.

#2: Aldrei gleyma forréttindunum ykkar; Þetta er þarfapýramídi maslow, sem snýst um grunnþarfir mannsins. Frá líkamlegum þörfum í grunninn, yfir í öryggi, kærleik, virðingu sjálfs og annarra, og að lokum sjálfsbirtingu (eða self-actualization). Forréttindi og aðstæður okkar sem eru hér inni geta verið mismunandi, en heilt yfir á Íslandi höfum við framúrskarandi aðstæður til þess að láta gott af okkur leiða. Við getum leyft okkur að eyða miklum tíma í efri þrepum pýramídans, á meðan stór hluti heimsins getur það ekki, þar sem öryggi eða líkamlegar grunnþarfir þeirra eru í hættu. Vitiði hversu margir eru með háskólagráðu í heiminum? Einungis 6,7% fólks í heiminum í dag er með háskólagráðu. Verum þakklát fyrir þau forréttindi sem við höfum. Það eru ekki mannréttindi að klára háskólanám, það eru forréttindi. Nýtið þau til góðs!

#3: Sækist eftir tilgangi, ekki störfum; Þetta er ekki maslow pýramídinn aftur. Þetta er pósan hjá Justin Bieber á plötuumslagi sínu fyrir „Purpose“, eða tilgangs-plötuna sína. Tæpu ári áður en við hjá Radiant Games gáfum út Box Island leikinn okkar, þá vissum við að viðskiptahugmyndin okkar væri gölluð. Það hefði verið ótrúlega auðvelt að hætta þá. Lág laun, langar vinnuvikur, mikil keyrsla. Við héldum samt áfram, vegna þess að við trúðum því að leikurinn myndi hafa jákvæð áhrif á börn um allan heim. Jafnvel þótt viðskiptahugmyndin myndi ekki virka til lengri tíma. Ekki sækja um störf, sækið um tilgang. Við erum öll með mismunandi eiginleika sem henta í mismunandi aðstæður. En takið ákvarðanir fyrst og fremst út frá því hvað þið getið lært og hvar þið getið haft raunveruleg áhrif. 

Vignir endaði ræðu sína á að segja: Að klára þetta nám er ekki endir, heldur upphaf. Þið eruð rétt að byrja yfir 100 ára ævi ykkar.

Hér er hægt að sjá ræðu Vignis sem hefst á mínútu 10.30.