Fréttasafn



29. júl. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Ísland í lykilstöðu í loftslagsmálum

„Ég held að Ísland sé í lykilstöðu til að sýna frumkvæði í þessu málum. Það var stofnaður samráðsvettvangur um loftslagsmál í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda fyrir nokkrum vikum síðan. Það er metnaðarfullt verkefni. Ég held að við gætum sýnt gott fordæmi,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, sem var meðal gesta í Vikulokunum á Rás 2 um helgina þar sem meðal annars var rætt um loftslagsbreytingar.

Þar segir Sigríður einnig að atvinnulífið sé reiðubúið í þetta og þá sérstaklega iðnaðurinn, „Það er mikið frumkvæði þar, við sjáum það í stóriðjunni að þar hafa menn verið að undirbúa sig og tekið þessi mál mjög föstum tökum.“ Hún segir að lykilorðið hér sé nýsköpun eins og í svo mörgu öðru. „Við þurfum að búa fyrirtækjum á Íslandi og auðvitað annars staðar þá umgjörð sem til þarf þannig að hvatinn komi innan frá og við ráðumst í þetta í sameiningu.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni.