Fréttasafn



9. apr. 2021 Almennar fréttir Innviðir Menntun Nýsköpun Starfsumhverfi

Íslenskur iðnaður eftir heimsfaraldur

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í hlaðvarpsþætti Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem nefnist Bryndís í stjórnmálum. Í samtali þeirra kemur fram að Samtök iðnaðarins séu stærstu samtök atvinnurekenda á Íslandi með um 1.400 félagsmenn og að samtökin gæti hagsmuna iðnfyrirtækja á Íslandi þar sem sé mikil breidd félagsmanna, allt frá múrurum, til gullsmiða, bakara, álvera og kvikmyndaframleiðslu.

Þegar talið berst að Iðnþingi samtakanna sem haldið var í mars síðastliðnum segir Sigurður að það hafi verið með talsvert öðru sniði með hliðsjón af faraldrinum. „Við vorum með beina útsendingu úr Hörpu þar sem við vorum að einblína á fjötra sem halda aftur af fjölgun starfa og sköpun verðmæta. Við gáfum út skýrslu, Hlaupum hraðar, sem byggir á þessu, að við þurfum að slíta fjötrana þannig að við getum hlaupið hraðar þannig að fyrirtækin geti ráðið fleira fólk í vinnu og skapað meiri verðmæti.“

Þegar Bryndís spyr hann hvort fyrirtæki séu bundin í fjötra af hálfu hins opinbera segir Sigurður að það sé stundum þannig en ólíkt eftir greinum. Hann segir fjötrana vera í byggingariðnaðinum en þeir séu víða.  „Það sem við erum að horfa á er samkeppnisæfnin en samkeppnishæfni er nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða þegar kemur að lífsgæðum. Þegar samkeppnishæfni er aukin verða til meiri verðmæti til að standa undir lífsgæðum sem við þekkjum og viljum búa við. En samkeppnishæfni ræðst ekki af einni breytu heldur er hún samspil margra og ólíkra þátta. Við höfum verið að draga það fram á síðustu árum og ef við horfum á rannsóknir á hvaða þættir skipta mestu máli þá eru þetta fjögur mál, það er menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Menntun er tækifæri fyrir einstaklinga og það eru mannauðsmál fyrir fyrirtækin. Menntakerfið hefur þangað til núna á allra síðustu árum einblínt of mikið á fyrri þáttinn en núna er verið að horfa í meira mæli á mannauðsþáttinn sem er mjög jákvætt.“

Iðn- og starfsnám opnar dyr en lokar ekki dyrum

Sigurður segir að okkur sé að verða nokkuð ágengt núna að auka fjölda þeirra sem fara í iðn- og verknám. „Það er mjög jákvætt að sjá núna nýlega eða rétt fyrir páska komu tölur fyrir innritun og við erum að sjá mikla aukningu í starfsnámið. Við höfum séð það núna önn fyrir önn í nokkur ár. Það er jákvætt.“ Hann segir það skipta gríðarlegu máli því fyrirtækin hafi átt í erfiðleikum með að finna iðnmenntað fólk því það hafi of fáir farið í slíkt nám. Það sama gildi um tækninám á háskólastigi, oft kallað STEM. „Hið síðarnefnda hefur haldið aftur af okkur hvað varðar nýsköpun, það er líka slæmt hvað fáir hafa fetað þá braut í háskólunum. En þetta horfir til betri vegar. Við erum að sjá aukningu sem er kærkomið að sjá en ef við horfum á síðasta áratugt höfum verið að beina öllum í sama farveginn.“

Í samtali þeirra kemur fram að það virðist vera vitundarvakning sem sé löngu tímabær. „Þau störf sem hafa orið til á síðasta áratug þau kalla ekkert endilega á háskólamenntun. Sá farvegur sem samfélagið hefur verið að beina nemendunum í hefur ekki fallið að raunveruleikanum varðandi fjölgun starfa og þörfum atvinnulífsins. Það er ekki heldur gott fyrir einstaklingana að finna sig ekki á vinnumarkaðnum,“ segir Sigurður. Hann segir þetta vera sterk skilaboð til nemenda eða þeirra sem eru með þennan bakgrunn að iðnám eða starfsnám opnar dyr en lokar ekki dyrum. „Það opnar á fjölmarga möguleika, réttindi til að starfa erlendis og fleira.“

Allir vilja byggja íbúðir í takt við þarfir markaðarins

Þegar talið best að byggingariðnaði og íbúðamarkaðnum segir Sigurður frá því að Samtök iðnaðarins séu  með starfsmann sem fer tvisvar sinnum á ári í þrjár vikur í senn til að telja íbúðir í byggingu. „Það felst í því að ganga um byggingarsvæði, telja svalir utan á byggingum og þannig til að átta sig á stöðunni. Auðvitað eru til opinberar tölur en þær eru bara svo fjarri raunveruleikanum vegna þess að þær koma frá byggingarfulltrúum með svo mikilli töf, þannig að þær sýna stöðuna eins og hún var í fortíðinni en ekki eins og hún er núna. Þannig að það er vandamál. Varðandi stöðuna á fasteignamarkaðnum þá hefur hún verið til umræðu núna upp á síðkastið, allar íbúðir seljast meira og minna strax og fólk er að kaupa jafnvel án þess að hafa skoðað. Þetta ástand kemur ekkert á óvart. Við sáum það árið 2019 þá þegar var farið að bera á kólnun á byggingamarkaði, veruleg fækkun á nýjum verkefnum og það hefur bara versnað síðan, færri og færri verkefni en það er eitthvað aðeins að breytast núna.“ 

Sigurður segir að það taki tvö ár frá því að fyrsta skóflustunga sé tekin þangað til að hægt sé að flytja inn. „En fram að því áður en að hægt er að taka skóflustunguna þá er kannski margra ára ferli.“ 

Í samtalinu hrósar Sigurður Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hvernig tekið er á málum því þau hafi farið í átak til að koma upplýsingatæknimálum í lag í eitt skipti fyrir öll og hafi fylgst vel með talningu SI núna til að stemma af sínar tölur. Hann segir yfirsýnina skipta máli fyrir alla. „Það dettur engum það til hugar að verktaki taki upp á því að byggja íbúðir sem ekki seljast. Það vilja auðvitað allir byggja í takt við þarfir markaðarins en þegar enginn veit hvernig markaðurinn er þá auðvitað er það ómögulegt.“ 

Á Facebook er hægt að horfa á samtal Bryndísar og Sigurðar í heild sinni.

Facebook-vidtal-08-04-2021Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Bryndis-Haraldsdottir-08-04-2021Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.