Fréttasafn



13. nóv. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Jákvæð áhrif áls og flugs á hagvöxtinn

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, sem segir aðspurður að endurræsing þriðja kerskálans sé góðar fréttir en starfsmenn álversins í Straumsvík hafa endurræst þriðja kerskálann. Með endurræsingunni verði meiri framleiðsla í hagkerfinu síðustu vikur ársins en ella. Það birtist í hagvexti. Við þetta bætist síðan áform flugfélagsins Play um að hefja flug til Evrópu. Hvort tveggja þýði meiri gjaldeyristekjur „sem séu að vissu leyti lífæð þjóðarbúsins“. Með því aukist fjárfestingar og innlend eftirspurn í hagkerfinu. 

Vinda ofan af atvinnuleysi

Í fréttinni segir að fram hafi komið í Morgunblaðinu í síðustu viku að aðflutningur erlendra ríkisborgara til landsins á þriðja fjórðungi í ár hefði verið kröftugur og jafnvel umfram spár. Spurður um efnahagsleg áhrif þessa segir Ingólfur aðflutninginn vera afleiðingu, fremur en orsök, stöðunnar í efnahagsmálum. „Aðfluttir erlendir ríkisborgarar hafi á þessu ári verið talsvert færri en á síðasta ári sem endurspeglar samdrátt í hagkerfinu. Atvinnuleysi hefur verið að aukast og dregið úr eftirspurn eftir vinnuafli. Launþegum hefur fækkað. Það er því mjög jákvætt ef hægt verður að vinda ofan af því atvinnuleysi sem orðið er,“ segir Ingólfur um stöðuna í hagkerfinu. 

Morgunblaðið , 13. nóvember 2019.