Fréttasafn



28. jún. 2018 Almennar fréttir Menntun

Kerfið tregt gagnvart eflingu iðn- og verknáms

Þetta tilvik er dæmi um það hversu iðnnám á Íslandi er lítils metið. Á sama tíma er talað um nauðsyn þess að fjölga útskrifuðum nemendum í iðn-, raun- og tæknigreinum. Það skýtur skökku við að um leið og við tölum fyrir eflingu iðn- og verknáms þá er allt kerfið mjög tregt til að stíga raunveruleg skref til breytinga. Þetta skrifar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingismaður, í pistli í Morgunblaðinu með yfirskriftinni Hver ákvað að iðnnám væri lítils virði? Tilefni skrifa hennar er umfjöllun um mál manns sem ekki fær inngöngu í lögreglunám við Háskólann á Akureyri vegna þess að hann hefur lokið iðnnámi en ekki bóknámi.  

Aslaug-arna-sigubjornsdottirÍ pistlinum segir Áslaug Arna jafnframt að mikill skortur sé á nemendum í verk- og iðnnámi og það sé ekki einungis vandamál hér á landi heldur alþjóðlegt. „Ein ástæða þess er sú að við leggjum gríðarlega mikið upp úr því að einstaklingar ljúki bóknámi, sem felst í stúdentsprófi til að bæta við sig menntun. Aðilar sem eru orðnir meistarar í sinni iðngrein hafa lokið iðnnámi (sem er að miklum hluta bóklegt), samningstíma, jafnvel sveinsprófi, meistaraskóla og fengið meistararéttindi eru samkvæmt kerfinu ekki til þess bærir að mennta sig frekar þar sem þeir hafa ekki lokið stúdentsprófi. Það hlýtur hver maður að sjá að svona getur þetta ekki verið. Hér á sér stað kerfisvandi. Megináhersla kerfisins hefur sem fyrr segir verið á bóknám. Þar af leiðir að við sjáum fjölda fólks útskrifast úr bóklegu háskólanámi.“ Hún segir jafnframt að flestir þeirra sem ljúka iðn- og tækninámi verði sjálfstæðir atvinnurekendur og þetta séu upp til hópa hörkuduglegir einstaklingar sem eigi ekki að þurfa að þola það að kerfið setji þeim stólinn fyrir dyrnar. „Við eigum að ýta undir fjölbreytt val í menntakerfinu okkar og hjálpa öllum einstaklingum að finna sér þann farveg í lífinu sem hentar þeim best. Það þarf að breyta kerfinu með þeim hætti að þeir sem lokið hafa iðnnámi eigi þess kost að bæta við sig námi. Til þess þarf kerfið að þora að gera breytingar, ekki bara tala um það án þess að nokkuð gerist.“

Morgunblaðið, 27. júní 2018.