Fréttasafn



30. jún. 2017 Almennar fréttir Menntun

Kóðinn kynntur fyrir útvarps- og sjónvarpsstjórum í Evrópu

Kóðinn var eitt af fjórum verkefnum sem kynnt var í flokknum „Proud to present“ fyrir útvarps- og sjónvarpsstjórum í Evrópu á aðalfundi Sambands útvarps- og sjónvarpsstöðva í Evrópu (EBU - European Broadcasting Union). Kóðinn, forritunarleikar fyrir krakka á RÚV, er tengdur Microbit sem er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, RÚV, menntamálaráðuneytisins, Menntamálastofnunar og fjölda fyrirtækja, þar á meðal Microsoft á Íslandi. Það var Sindri Bergmann Þórarinsson, verkefnastjóri KrakkaRÚV, sem kynnti verkefnið í dag fyrir fullum sal stjórnenda útvarps- og sjónvarpsstöðva Evrópu í ráðhúsinu í Dublin á Írlandi. 

Markmið Microbit verkefnisins sem var hleypt af stokkunum síðastliðið haust er að efla þekkingu og áhuga ungs fólks á Íslandi á forritun enda ljóst að mörg störf eru að breytast og á næstu áratugum er tækniþekking og þekking á forritun forsenda flestra starfa hér á landi eins og annars staðar. Öllum börnum í 6. og 7. bekk í grunnskólum á Íslandi var boðið að fá smátölvuna Microbit en á hana er hægt að forrita á ótal ólíka vegu, bæði í gegnum tölvuna eina en einnig með tengingum við önnur tæki og tölvur. Viðbrögð fóru langt fram úr væntingum en innan tveggja mánaða voru 97% barna á þessum aldri komin með tölvuna og byrjuð að forrita. Þau gátu nálgast fjölbreytt fræðslu- og skemmtiefni á KrakkaRÚV auk þess sem þar var hægt að taka þátt í áskorunum af ýmsu tagi. Forritunarleikarnir Kóðinn 1.0 voru haldnir allan síðasta vetur og voru verðlaun afhent af menntamálaráðherra í Útvarpshúsinu í maí. Ákveðið hefur verið að halda áfram með verkefnið á komandi vetri og byggja það á sömu uppbyggingu samstarfs og áður.