Fréttasafn



22. nóv. 2016 Almennar fréttir

Lærðu hvernig Microbit er notað í forritunarkennslu

Grunnskólakennarar og sérfræðingar fengu tilsögn í notkun Microbit forritanlegu smátölvanna sem nota á til kennslu fyrir nemendur í 6. og 7. bekk. Leiðbeinendurnir, Peli de Halleux og Jacqueline Russell, komu hingað til lands á vegum Microsoft á Íslandi. Mikill áhugi var á viðburðinum og mættu um 80 manns í húsakynni Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð. Fundurinn var streymdur beint á netinu og þegar mest var voru rúmlega 100 manns að fylgjast með í beinni útsendingu. 

Microbit-verkefnið sem er stærsta einstaka aðgerðin sem ráðist hefur verið í til að efla forritunarkennslu á Íslandi er samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Menntamálastofnunar, RÚV, Samtaka iðnaðarins og fyrirtækja sem samtökunum tengjast. Það eru tæplega 9.000 nemendur sem hafa möguleika á að fá tölvur. 

Hægt er að skoða myndasafn frá viðburðinum á Facebook. 

Á vef RÚV eru upplýsingar um forritunarleika fyrir krakka sem nefnast Kóðinn 1.0.