Fréttasafn



26. nóv. 2018 Almennar fréttir Menntun

Lágt vægi list- og verkgreina sláandi

Við viljum ráðast að rótum vandans, enda sýna greiningar að við þurfum að vinna með þetta á grunnstigum menntakerfisins og þegar við skoðum stöðu þessara greina í grunnskólanum koma sláandi staðreyndir í ljós. Þetta segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri reksturs Mennta- og mannauðsmála hjá Samtökum iðnaðarins, meðal annars í viðtali Orra Páls Ormarssonar í Morgunblaðinu um helgina um vægi list- og verkgreina í grunnskólum landsins og nýja menntastefnu samtakanna. Í greininni kemur fram að í viðmiðunarstundaskrám sé hlutfallið sem grunnskólum beri að verja til kennslu í list- og verkgreinum ein af hverjum fimm mínútum í yngstu bekkjunum og fari niður í eina af hverjum þrettán mínútum í elstu bekkjunum. Að áliti Ingibjargar Aspar er þetta sláandi lágt hlutfall. „Ekki nóg með það, þegar rýnt er í stundaskrár grunnskóla kemur í ljós að skólarnir eru í fáum tilvikum að fylgja þessum stundaskrám. Við sjáum að á miðstigi, sem er 5. til 7. bekkur, uppfylla 80% skóla í Reykjavík ekki þessi viðmið. Það er mjög alvarlegt.“ Hún segir þetta koma sér illa þegar fyrir liggur að skortur á fólki með iðnmenntun á vinnumarkaði sé mikill, þannig að það hamli jafnvel þróun á starfsemi fyrirtækja. 

Skortur á starfsfólki með nauðsynlega færni og þekkingu

Í viðtalinu segir Ingibjörg Ösp margt benda til þess að skortur á starfsfólki með nauðsynlega færni og þekkingu ráði mestu og í einhverjum tilvikum aðstöðuskortur. „Það er líka ákveðið vandamál að innan kvótans hafa skólarnir töluvert svigrúm. Það þýðir að hafi skóli hæfan kennara í textílmennt í sínum röðum getur hann gengið langt í að fylla kvótann með því að láta nemendurna hekla. Þannig er þetta auðvitað ekki hugsað; við teljum eðlilegt að vinna þetta á breiddina. List- og verkgreinar eru svo ótrúlega margar og fjölbreyttar.“ Hún segir mikilvægt að bæta aðgengi fólks sem hefur sérmenntun á sviði list- eða iðngreina að kennslu. „Eins og staðan er í dag tekur það eitt til tvö ár að öðlast kennsluréttindi, fyrir litla sem enga launahækkun. Það er vitaskuld ekki hvetjandi og alls ekki ásættanlegt. Fyrir vikið er mikilvægt að stytta og einfalda réttindaferlið og breyta regluverkinu með hliðsjón af því.“ 

Starfsráðgjöf í grunnskólum ábótavant

Þá kemur fram í máli Ingibjargar Aspar í viðtalinu að miðlun upplýsinga vegi þungt en þegar nemendur eru spurðir að loknum grunnskóla hversu margar leiðir séu í boði varðandi verkmenntun geti þeir almennt nefnt fjórar til sex leiðir. Staðreyndin sé á hinn bóginn sú að 100 leiðir eru í boði, þar af sextíu sem tengjast starfsmenntun. „Þarna komum við að náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum sem er afar mikilvæg. Námsráðgjafar eru býsna einsleitur hópur, með akademískan bakgrunn. Þeirra störf virðast alla jafna vera frekar vandamáladrifin. Áherslan er á að greina frávik og vinna ýmiskonar erfiðleika á borð við kvíða og þess háttar. Vissulega mjög mikilvægt en því miður er það svo að starfsráðgjöfin líður fyrir það. Henni er ekki sinnt eins og þarf að sinna henni og börnin ekki upplýst um alla kosti sem eru í stöðunni. Það er ekki nóg að sinna bara þeim sem eru í bráðum vanda. Þarna teljum við að séu tækifæri í því að gera fleirum kleift að sinna starfsráðgjöf.“ 

Seinka því hvenær börn velja milli bóknáms og starfsnáms

Í viðtalinu segir Ingibjörg að könnun hafi leitt í ljós að börn eru að velja skóla en ekki nám þegar kemur að vali á framhaldsskóla. „Það leiðir hugann að róttækustu tillögunni í nýju menntastefnunni okkar sem snýr að því að seinka þessum brotpunkti, það er að segja þegar kemur að því að velja milli bóknáms og starfsnáms. Eru krakkar almennt tilbúnir að gera það fimmtán ára? Hvaða forsendur hafa þeir til að taka þessa risastóru ákvörðun á þeim aldri?“

Morgunblaðið, 24. nóvember 2018. mbl.is, 25. nóvember 2018.

Morgunbladid-menntun-24-11-2018